„Þetta á ekki að snúast um mig“

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, segir undirskriftarlista þar sem sú at­b­urðarrás sem átti sér stað á fé­lags­fundi Pírata 15. júlí er for­dæmd, vera ánægjuefni. Hún segir jákvætt að verið sé að gagnrýna þau vinnubrögð sem áttu sér stað, en segir mikilvægt að málið snúist ekki um sig. 

„Þetta er til þess að fordæma vinnubrögðin. Þetta á ekki að snúast um mig,“ segir Birgitta í samtali við mbl.is. 

Í yf­ir­lýs­ingu við und­ir­skrift­arlist­ann segir að fram­koma þeirra þing­manna Pírata og ann­ars valda­fólks inn­an flokks­ins sem fóru hörðum orðum um Birgittu Jóns­dótt­ur, vera op­in­bera aðför sem sé bæði ámæl­is­verð og eng­um til gagns. 64 einstaklingar hafa skrifað undir listann í dag, margir hverjir úr grasrót Pírata. 

„Ég vil ekki vera að tjá mig meira um þetta. Mér finnst bara gott að fólk bendi á hið augljósa og standi í lappirnar,“ segir Birgitta. 

Birgitta segist ekki upplifa undirskriftarsöfnunina sem stuðning við sig. 

„Það er alveg sama hver hefði lent í þessu. Ég hefði kvittað undir nákvæmlega svona skjal.

„Mér finnst flott að það komi eitthvað sem sýnir að fólk var ekki sátt við vinnubrögðin. Ég las þetta ekki sem stuðningsyfirlýsingu við mig, enda kemur það hvergi fram. Þetta var bara ekki góð leið til að vinna úr einu né neinu.“

Birgitta segist nú vera að snúa sér að öðru og að fyrir sér sé málinu lokið. 

„Ég ætla ekki aftur í Pírata og ég ætla ekki að fara búa til meiri gjá á milli fólks. Ég hef bara annað og betra við lífið mitt að gera. Ég ætla ekki niður á þetta plan. 

„Ef það er eitthvað jákvætt sem á að koma út úr þessu þá veit ég til þess að fólk er að reyna að rífa upp grasrótina innan Pírata, hún átti alltaf að ráða. Mér finnst gott að búa í samfélagi þar sem fólk upplifir sig hafa rödd og ég vona að það takist aftur, þar og víðar.“

mbl.is
Loka