Fólk sér CE og heldur að allt sé í lagi

Myndband af norskum dreng í grísku flotvesti hefur vakið mikla …
Myndband af norskum dreng í grísku flotvesti hefur vakið mikla athygli. Herdís segir að álíka vesti finnist hér á landi, þótt engu sé slegið fast um að öryggi þeirra sé eins ábótavant. Skjáskot/Myndskeið Martin Norløff Twist

„Fólk þarf að vera mjög á varðbergi. Við erum að reiða okkur á, að það sem er sett á barnið, hvort sem það eru armakútar eða vesti, sé örugg vara. Þá er betra að eyða aðeins meiri pening og vera alveg öruggur,“ segir Herdís L. Storgaard, verkefnastjóri barna- og slysavarna hjá Miðstöð slysavarna barna.

Myndband af norsku barni í grísku öryggisvesti hefur vakið ugg. Þar sést hvernig vestið bregst, sem á að tryggja að barnið haldist á floti. Blessunarlega gerist það þegar foreldrarnir eru að prófa vestið með barninu. Myndbandið er að sjá neðar í fréttinni.

Herdís Storgaard, verkefnastjóri barna- og slysavarna hjá Miðstöð slysavarna barna. …
Herdís Storgaard, verkefnastjóri barna- og slysavarna hjá Miðstöð slysavarna barna. Hún segir ástæðu til að varast öryggisbúnað sem keyptur er á netinu.

„Það er eitthvað til sem heitir björgunarvesti. Þetta er ekki það. Þetta er það sem á ensku heitir „swimming aid“ og er fyrir börn sem eru á millistigi þess að vera alveg ósynd og að vera synd,“ segir Herdís.

Svona búningur heldur líkamanum uppi en eins og sést í umræddu myndbandi þarf barnið sjálft að kunna að halda höfðinu upp úr vatninu, svo kraginn verði ekki ofan á. „Þetta vesti er fyrir þetta millistig. Þetta er viðurkenndur búnaður og hann er seldur hér á landi og sumir nota hann,“ segir Herdís en þá er ekki sama hvaðan hann kemur.

Flestir nota þó bara gömlu góðu armakútana, enda þeir sérstaklega hannaðir til að halda höfði barnsins yfir yfirborðinu.

Varhugavert að panta búnað á netinu

„Ég hef ekki miklar áhyggjur af því ef fólk er að kaupa þetta hér á landi og notar þetta rétt. Þau fyrirtæki sem sérhæfa sig í þessu vanda sig við þetta. Það sem ég hef áhyggjur af er að fólk sé að panta þetta á netinu. Það sér þá CE-merkinguna og trúir því að þetta sé allt í lagi,“ segir Herdís og bætir við að sú sé alls ekki alltaf raunin.

Sérstaklega þarf að gæta að því að kaupa ekki öryggisbúnað á börn á hvaða mörkuðum sem er úti í heimi. Herdís segir of algengt að fólk freistist til að kaupa hann á slíkum stöðum.

„Í útlöndum er fólk líka að kaupa svona hringlaga kúta með klofbandi þannig að barnið geti setið. Það er hvorki öryggisbúnaður né hjálparbúnaður til að læra að synda. Það eru bara leikföng,“ segir Herdís. Slíkt eigi alls ekki að nota sem öryggistæki.

Hún segir að mikið hafi unnist með forvarnastarfi síðustu áratugi hér á landi, sem sést meðal annars á því að ekki hafa orðið drukknanir um nokkurra ára skeið. Á sama tíma sendi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin út ákall til þjóðarleiðtoga annarra um að auka öryggi barna, því annars staðar eru drukknanir tíðari, jafnvel þar sem sundskylda er.

mbl.is

Bloggað um fréttina