Íslenska ríkið brotlegt gagnvart Styrmi

Styrmir Þór Bragason átti rétt á málsmeðferð fyrir Hæstarétti, að …
Styrmir Þór Bragason átti rétt á málsmeðferð fyrir Hæstarétti, að mati MDE. Sigurgeir Sigurðsson

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur dæmt íslenska ríkið brotlegt gagnvart Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP banka, eftir einróma niðurstöðu dómsins. Stjórnvöld eru talin hafa brotið gegn lögum í Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt manna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

Þessi lög eru sögð hafa verið brotin þegar Styrmir Þór var dæmdur í eins árs fangelsi af Hæstarétti í sambandi við svonefnt Exeter-mál. Þegar það var gert, í október 2013, var Hæstiréttur að snúa nokkurra mánaða gömlum dómi héraðsdóms í málinu, sem hafði sýknað Styrmi. Hæstiréttur áréttaði í sínum dómi þá, að að virtri „mennt­un [Styrmis] og þekk­ingu á starf­semi banka og annarra lána­stofn­ana hafi [honum] ekki getað dulist að lán­veit­ing Byrs spari­sjóðs til Tækni­set­urs­ins Arkea ehf. 13. októ­ber 2008 hafi verið ólög­mæt og til þess fall­in að valda spari­sjóðnum veru­legri fjár­tjóns­hættu“.

Íslenska ríkið þarf að greiða Styrmi Þór 7.500 evrur í málskostnað, andvirði ríflega milljónar króna, vegna þessa brots á 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmálans. Í dómnum er ekki fallist á aðrar kröfur Styrmis, eins og þær að ríkið greiði honum 5,7 milljónir í miskabætur, 3,9 milljónir fyrir málskostnað fyrir innlendum dómstólum og 3,6 milljónir fyrir málskostnað fyrir MDE.

MDE taldi í dómi sínum að það að gangast við því að brotið hefði verið á rétti Styrmis til réttlátrar málsmeðferðar teldust nægar bætur í sjálfu sér. Ekki þyrfti líka fjárgreiðslu.

Kæra Styrmis til MDE var fyrst og fremst byggð á því að Hæstiréttur hafi neitað honum um málsmeðferð. Styrmir sagði Hæstarétt hafa komist að sinni niðurstöðu um fangelsisdóm með því að endurmeta vitnisburð vitna í héraðsdómi, en vitnin komu ekki fyrir Hæstarétt. Íslenska ríkið hélt því hins vegar fram að hæstaréttardómurinn yfir Styrmi hafi ekki verið byggður á endurmati á sönnunargildi vitnisburðar í héraðsdómi og því hafi hann ekki þurft að fá málsmeðferð fyrir Hæstarétti.

Upphæðin sem ríkið þarf að greiða Styrmi er lægri en hann hafði krafist. Ríkið hélt því fram fyrir MDE að Styrmir hafi ekki útskýrt hvernig það hefði gagnast honum að fá málsmeðferð fyrir Hæstarétti í málinu. Hann hafi ekki sýnt hvernig hans framburður fyrir Hæstarétti hefði getað breytt niðurstöðu dómsins þegar sönnunargögnin voru metin. Styrmir lagði áherslu á að dómur Hæstaréttar hafi haft „alvarlegar afleiðingar“ fyrir hann, þar sem ekki aðeins hafi verið um fangelsisdóm að ræða heldur hafi Styrmir einnig misst vinnuna og verið meinað að vinna á fjármálamarkaði í 10 ár.mbl.is