„Núna eru menn að vakna“

Ekki liggur fyrir hvenær nýr Herjólfur hefur siglingar milli lands …
Ekki liggur fyrir hvenær nýr Herjólfur hefur siglingar milli lands og Eyja. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það kemur manni á óvart að það sé verið að bregðast við þessu núna fyrst. Skipstjórnarmenn á nýja Herjólfi hafa bent á að það þurfi að gera breytingar á hafnarmannvirkjunum í Vestmannaeyjum og núna eru menn að vakna,” segir Njáll Ragnarsson, formaður bæj­ar­ráðs Vest­manna­eyja, um tafir á að nýr Herjólfur hefji siglingar.

Breyta þarf viðlegukanti í höfn­inni í Vest­manna­eyj­um áður en nýr Herjólfur getur hafið áætlunarsiglingu. Njáll furðar sig á seinagangi Vegagerðarinnar að hefjast handa við breytingar á höfninni. Samkvæmt upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar er óvíst hvort hann hefji áætlun fyrir verslunarmannahelgina vegna þessa.  

Í ljós hefur komið að nýr Herjólfur þarf að fara í slipp til Akureyrar í haust vegna galla sem reynd­ist vera í öðrum jafn­væg­isugg­an­um og sjór kemst í snertingu við olíu.  

„Það geta alltaf komið upp hinir ýmsu hnökrar þegar nýsmíðuð skip eru tekin í gagnið. Ég veit ekki hvort þetta er eitthvað óeðlilegt og tel að þetta sé ekki áfellisdómur yfir skipinu,“ segir Njáll um að nýr Herjólfur þurfi að fara í slipp. Í þessu samhengi bendir hann á að þegar varðskipið Þór kom nýtt til landsins á sínum tíma þurfti einnig að gera ýmsar lagfæringar á skipinu vegna hristings í vélarrúmi áður en það var tekið í notkun. 

„Við höfum alltaf Herjólf þriðja sem sinnir þessu hlutverki á meðan hinn er í slipp. Þetta á ekki eftir að hafa nein áhrif á ferðamátann milli lands og Eyja,“ segir Njáll. 

mbl.is