Heitir reitir í boði ESB

Styrkþegar og -veitendur hittust við Ráðhúsið í Reykjavík.
Styrkþegar og -veitendur hittust við Ráðhúsið í Reykjavík. Ljósmynd/Evrópusambandið á Íslandi

Evrópusambandið afhenti í gær þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar 15.000 evra styrk, um 2,1 milljónar króna, til uppsetningar á heitum reitum víðsvegar um borgina. Munu borgarbúar bráðum geta tengst þráðlausu neti á opnum stöðum í borgarlandinu í boði Evrópusambandsins.

Michael Mann, sendiherra Evrópusambandansins, afhenti styrkinn og veittu Magnús Yngvi Jósefsson, verkefnastjóri Snjallborgarinnar Reykjavík, og Óskar J. Sandholt honum viðtöku fyrir hönd borgarinnar.

Uppbyggingin er liður í WiFi4EU áætlun Evrópusambandsins sem miðar að því að koma á fríu þráðlausu neti í almenningsrými aðildarríkja, og tekur áætlunin einnig til EES-ríkja. 

Verkefnið hófst í fyrra en á fyrstu tveimur árum þess er áætlað að rúmlega 8.000 sveitarfélög hljóti styrkinn, upp á 15.000 evrur hvert, og komast mun færri að en vilja.

Ekki liggur fyrir hvar hinum nýju heitu reitum verður komið fyrir, en þegar er boðið upp á frítt net á nokkrum stöðum í borgarlandinu, svo sem á Austurvelli.

mbl.is