Leiðinni breytt til að auka stemningu

Hlaupaleiðinni hefur verið breytt og liggur hún nú í auknum …
Hlaupaleiðinni hefur verið breytt og liggur hún nú í auknum mæli í gegnum íbúðagötur í borginni, fer meðal annars um Tún, Teiga og Bryggjuhverfi. mbl.is/Valli

Þeir sem hyggja á að hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst mega búast við því að stemningin á hlaupaleiðinni verði meiri en undanfarin ár.

Hlaupaleiðinni hefur verið breytt og liggur hún nú í auknum mæli í gegnum íbúðagötur í borginni, fer meðal annars um Tún, Teiga og Bryggjuhverfi. Einnig verður farið í gegnum miðbæinn, um bæði Bergstaðastræti og Grettisgötu, þar sem búast má við því að fjöldi fólks verði á ferli til þess að hvetja keppendur til dáða.

Maraþonhlauparar hafa undanfarin ár gagnrýnt það að síðari hluti keppnisbrautarinnar taki á, þar sem hlaupaleiðin hefur á síðari hlutanum legið um Fossvog og meðfram strönd Seltjarnarness alla leið út að Gróttu, á göngustígum þar sem fáir eru til þess að hvetja hlauparana áfram. Hvatning skiptir enda miklu máli þegar búið er að fara á tveimur jafnfljótum yfir 30 kílómetra leið og þreyta og óþægindi byrjuð að sækja að.

Svona verður hlaupaleiðin í maraþoninu. Stefnt er að því að …
Svona verður hlaupaleiðin í maraþoninu. Stefnt er að því að stemningin á lokakílómetrunum verði meiri en áður. Kort/Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka

Arnar Pétursson, einn fremsti hlaupagikkur þjóðarinnar, sagði meðal annars við mbl.is í fyrra að seinni hlutinn væri „andlega erfiður“ og greindi frá því að hann hefði setið fundi með ÍBR og Íslandsbanka þar sem rætt hefði verið um að bæta þennan þátt í umgjörð hlaupsins.

Haldið í einkenni brautarinnar

Í dag voru breytingarnar tilkynntar og segir Jóna Hildur Bjarnadóttir hlaupsstjóri Reykjavíkurmaraþonsins í samtali við mbl.is að komið hafi verið til móts við óskir hlaupara um meiri stemningu og stuð í borgarmaraþoninu.

„Þú hefur verið svolítið einn þarna úti við ströndina, þó að hún sé mjög falleg og slétt, þá hefur þú verið svolítið einn,“ segir Jóna Hildur. Hún segir einkenni brautarinnar einmitt hafa verið hvað hún er slétt og hröð og reynt var að halda í það við breytingarnar.

Breytingarnar á leiðinni hafa verið gerðar í samráði við lögreglu, Reykjavíkurborg og Strætó og hefur ferlið staðið yfir frá því síðasta haust. Truflarnir verða á umferð í þeim götum sem bætast við hlaupaleiðina í ár.

„Við munum bara kynna það bara mjög vel fyrir íbúunum og fá þá til að taka þátt í fjörinu,“ segir Jóna, en í fyrra voru þátttakendur í maraþonhlaupinu yfir 1.300 talsins.

mbl.is