Andlega erfið hlaupaleið

Arnar kemur hér í mark í Reykjavíkurmaraþoninu í gær.
Arnar kemur hér í mark í Reykjavíkurmaraþoninu í gær. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Hlauparinn Arnar Pétursson, sem kom fyrstur Íslendinga í mark í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í gær, segir í samtali við mbl.is að hlaupið hafi gengið eins og best væri á kosið. Arnar kom í mark á tímanum 2:26:43 sem er besti tími sem Íslendingur hefur náð í maraþoni á íslenskri grundu.

„Ég var með mjög stuttan og snarpan undirbúning fyrir þetta og var í rauninni bara búinn að vera að æfa síðan í júní og bara taka eina alvöru maraþon-æfingu fyrir þetta,“ segir Arnar, sem hefur verið meira að einbeita sér að hraðaæfingum í sumar.

„Miðað við svona stuttan undirbúning gæti ég ekki verið sáttari með að bæta tímann minn í Reykjavíkurmaraþoni um eina og hálfa mínútu frá í fyrra og að vera á besta tíma sem Íslendingur hefur hlaupið á íslenskri grundu.“

Hann hefur gaman af því að hafa náð þeim árangri og segir að það geti verið mjög krefjandi að hlaupa á Íslandi. Í gær hafi til dæmis verið „alveg góður vindur“, sem telur.

Sá lítið til þeirra tveggja efstu

Arnar varð Íslandsmeistari í maraþoni með því að koma fyrstur í mark í gær, en tveir erlendir hlauparar komu á undan honum í mark, þeir Benjamin Paul Zywicki frá Bandaríkjunum og Peter Jenkei frá Ungverjalandi.

„Þeir voru tveir þarna mjög sterkir, annar átti 2:18 sem sinn besta tíma og hinn átti 2:20,“ segir Arnar, sem sjálfur hefur hraðast hlaupið á 2:24:13, en það gerði hann í Hamborg í Þýskalandi í apríl síðastliðnum.

Frá endamarki í Reykjavíkurmaraþoninu í gær.
Frá endamarki í Reykjavíkurmaraþoninu í gær. mbl.is/Valli

„Þeir fóru gríðarlega hratt af stað og maður sá þá ekkert, en ég síðan endaði á að hlaupa síðustu 12 kílómetrana hraðast af öllum í hlaupinu, þannig að ef maður hefði byrjað fyrr og vitað að þeir voru að deyja síðustu kílómetrana og farið væri að hægjast á þeim, þá hefði maður kannski byrjað fyrr að keyra upp hraðann. En ég vissi ekkert hversu langt var í þá,“ segir Arnar léttur.

Í hlaupinu var hann lengi samhliða danska hlauparanum Michael Jeppesen, sem endaði í fjórða sæti, en hafði hann á seinustu kílómetrunum. Arnar hljóp fyrri hluta hlaupsins hraðar en þann síðari, enda var erfiður mótvindur á síðari hlutanum.

„Við fórum fyrri hlutann alveg nokkuð rösklega, fyrsta kílómetrann tók ég á 3 mínútum og 10 sekúndum, sem er alveg helvíti hratt, en síðan var mótvindur frá Fossvoginum og alveg út á Seltjarnarnes, 12 kílómetra kafli frá kílómetra 23 og upp í 35, þannig að seinni hlutinn var mun erfiðari og ég held að allir hafi hlaupið hægar seinni hlutann, því hann er bara erfiðari í þessari braut. En fyrir mig var þetta bara „perfect“ þannig séð, því maður nær að auka [hraðann] síðustu kílómetrana og kemur á sprettinum í mark,“ segir Arnar.

Hlaupaleiðin andlega erfið

Hann segir að sér hafi liðið vel í líkamanum í hlaupinu og eftir að það kláraðist. Núna, daginn eftir hlaup, segist hann líka vera í toppmálum.

„Það er alltaf smá svona óvissa með maraþon, maður veit aldrei hvernig líkaminn kemur út úr því. Það er alltaf eitthvert vöðvaniðurbrot sem verður, en það eru ekki einhverjir „major“ verkir eða eitthvað svoleiðis,“ segir Arnar hress.

Hlaupaleiðin í Reykjavíkurmaraþoninu getur verið „andlega mjög erfið“, segir Arnar, spurður um það hvernig upplifun það sé fyrir hlaupara að taka þátt í þessu hlaupi miðað við stór hlaup á erlendri grundu.

Fjölmargir hvöttu hlaupara til dáða niðri í miðbæ, en færri …
Fjölmargir hvöttu hlaupara til dáða niðri í miðbæ, en færri eru að hvetja maraþonhlauparana á löngum köflum brautarinnar. mbl.is/Valli

„Þú hleypur fyrri hlutann á götu og svo er seinni hlutinn allur á gangstígum. Það hefur vantað svolítið upp á hvatninguna í Fossvoginum og út í Nauthólsvíkina og þar,“ segir Arnar. Hann segist hafa nefnt það atriði sérstaklega á fundum með Íþróttabandalagi Reykjavíkur og Íslandsbanka um atriði sem mættu betur fara í brautinni. Hann segir „ógeðslega gaman“ að vita að skipuleggjendur hlaupsins séu með metnað fyrir því að gera sífellt betur og gera Reykjavíkurmaraþonið að hlaupi í líkingu við það sem best gerist erlendis.

„Stór hluti af því er að hvatningin og upplifun hlauparanna í maraþoninu verði sem best og þar verði áframhaldandi bæting á. Núna var sér marksvæði fyrir hlauparana í maraþoni og hálfmaraþoni og boðið upp á nudd eftir hlaupið, sem var ógeðslega töff og þekkist í þessum stóru erlendu maraþonum, svo þetta er alltaf að verða meira og meira í líkingu við það sem þekkist erlendis,“ segir Arnar.

„Þessir tveir gæjar sem komu í mark á undan mér eru örugglega með betri hlaupurum sem hafa komið að hlaupa í þessu hlaupi. Ég held að tíminn minn hefði nægt til að vinna þetta hlaup í 18 af síðustu 20 skiptum eða eitthvað, þannig að það er mjög gaman að sjá að þetta er að laða að sterka hlaupara.“

mbl.is