167 manns voru strandaglópar á Tenerife

Boeing 737-MAX þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Boeing 737-MAX þotur Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Mynd/mbl.is

167 manns voru strandaglópar á Tenerife í gær eftir að flugi Icelandair til Tenerife var aflýst. Þá voru 175 manns sendir heim úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir að fluginu hafði fyrst verið seinkað um tvær klukkustundir en því var svo aflýst þegar hálftími var í brottför. Þetta staðfestir starfsmaður á samskiptasviði Icelandair í samtali við mbl.is

Vandræði vegna 737 MAX

Flugið til Tenerife átti upphaflega að fara klukkan 11:30 í gær en það breyttist fyrir mánuði síðan vegna endurskipulagningar í kjölfar vandamála sem upp komu vegna kyrrsetningar 737 MAX-flugvéla Icelandair.

Nýr brottfarartími var settur klukkan 15:30 í gær en stuttu fyrir brottför var því seinkað til klukkan 17:30. Rétt fyrir klukkan 17:00 í gær var fluginu svo endanlega aflýst og farþegar beðnir um að fara heim, segir maður sem átti bókað flug til Tenerife í gær.

Í gær var tveimur flugferðum Icelandair og Transavia frá Amsterdam til Keflavíkur aflýst og fregnir herma að það hafi komið upp bilun í eldsneytisbúnaði á Schipol-flugvelli sem gerði ómögulegt að setja eldsneyti á vélarnar.

Nýr brottfarartími settur í dag

„Við getum staðfest að það kom upp bilun í gær og svo rann áhöfnin út á tíma svo að það var ákveðið að senda farþeganna heim,“ segir Lea Gestsdóttir sem vinnur á samskiptasviði Icelandair í samtali við mbl.is.

Ekki var hægt að fá nánari upplýsingar um bilunina en svo virðist sem að búið sé að leysa úr málinu því nýr brottfarartími hefur verið ákveðinn og fer flugið klukkan 15:20 í dag og samkvæmt heimildum mbl.is hafa farþegar verið upplýstir um stöðu mála.

Þeir farþegar sem voru eftir á Tenerife í gær fengu hótelgistingu og munu koma til landsins í kvöld með sömu vél.

„Þegar svona mál koma upp þá gerum við allt sem við getum til að leysa málið en vissulega breytir þetta ferðalaginu. En það er allavega búið að leysa málið og það er það sem skiptir máli akkúrat núna,“ bætir Lea við.

mbl.is