Ákærðar fyrir meiri háttar skattsvik

mbl.is/Ófeigur

Héraðssaksóknari hefur ákært systurnar Berglindi Björk Jónsdóttur og Ragnheiði Jónu Jónsdóttur fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum vegna tekjuáranna 2007 og 2008.

Fram kemur í ákærunni að Berglind sé ákærð fyrir að hafa ekki gefið upp fjármagnstekjur upp á rúmar 404 milljónir króna og þannig ekki staðið skil á 40,4 milljónum króna í fjármagnstekjuskatt.

Ragnheiður er ákærð fyrir að hafa ekki talið fram fjármagnstekjur upp á rúmar 148 milljónir króna, meðal annars vegna gengishagnaðar, og þar með ekki staðið skil á 14,8 milljónum í fjármagnstekjuskatt.

Krefst héraðssaksóknari þess að þær verði dæmdar til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Héraðssaksóknari hafði áður gefið út ákæru á hendur bróður þeirra Berglindar og Ragnheiðar, Haraldi Reyni Jónssyni, fyrir að hafa ekki gefið upp fjármagnstekjur upp á rúmar 245 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert