Rúmur helmingur vöðunnar kominn á sund

Frá fjörunni neðan við Útskálakirkju í Garði í gærkvöldi. Dýrin, …
Frá fjörunni neðan við Útskálakirkju í Garði í gærkvöldi. Dýrin, sem á annað borð lifðu af, eru nú komin á sund, að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Ljósmynd/Víkurfréttir

„Rétt fyrir kl. 8 var hægt að segja að allir hvalirnir væru komnir á sund, sem á annað borð lifðu af. Menn eru að tala um að þetta hafi tekist svo vel að tekist hafi að bjarga rúmlega helmingnum af dýrunum sem fundust þarna í gærkvöldi,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, spurður hvernig aðgerðir björgunarsveita og lögreglu í fjörunni nærri Garðskagavita hafi gengið í nótt.

Þar var nokkur hópur fólks að störfum í nótt við það að halda grindhvölum þeim, sem syntu upp í fjöruna á háflóði í gær og urðu svo sem fiskar á þurru landi er fjaraði undan þeim, rökum. Um 50-60 dýr var að ræða.

„Menn voru að úða og bera vatn á dýrin til þess að halda þeim rökum til þess að þau ættu von á að lifa þetta af,“ segir Davíð. Svo var beðið eftir háflóði, sem var laust fyrir klukkan átta og þá komst sem áður segir rúmlega helmingurinn af hópnum á sund.

Dýrin virðast eitthvað ringluð

Björgunarsveitarfólk er á vettvangi með báta og hefur verið að reyna að smala hvölunum frá landi, til þess að sama sagan endurtaki sig ekki, en Davíð segir að svo virðist sem dýrin séu ringluð og áttavillt.

„Staðan núna er sú að allir þessi sem að lifðu af eru komnir í rétta átt, en við höfum séð það í fortíðinni að dýr hafa verið rekin úr höfnum og eru svo komin þangað aftur nokkrum klukkustundum síðan. Vonandi tekst að koma þeim nógu langt út á sjó til þess að þau finni sína leið,“ segir Davíð.

Víkurfréttir birtu í gærkvöldi myndskeið af hvölunum í fjörunni og björgunaraðgerðum, sem sjá má hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert