Uppsögnin takmarkaði tjáningarfrelsi

Háskólinn í Reykjavík takmarkaði tjáningarfrelsi Kristins Sigurjónssonar kennara skólans þegar …
Háskólinn í Reykjavík takmarkaði tjáningarfrelsi Kristins Sigurjónssonar kennara skólans þegar honum var sagt upp störfum eftir ummæli um konur en skólinn braut þó ekki lög með þeirri takmörkun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Háskólinn í Reykjavík var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknaður af öllum dómkröfum Kristins Sigurjónssonar, fyrrverandi kennara við skólann. Kristinn hafði stefnt skólanum fyrir það sem hann taldi ólögmæta uppsögn frá störfum í október síðasta haust.

Í dómnum er ekki fallist á að uppsögnin hafi verið ólögmæt, þó að í reynd sé fallist á að um takmörkun á tjáningarfrelsi hafi verið að ræða. Talað er um að vegna stöðu sinnar sem háskólakennara og á grundvelli almennra trúnaðarskyldna gagnvart vinnuveitanda, verði að telja að Kristni hafi verið „rétt að vanda það sérstaklega hvernig hann nýtti tjáningarfrelsi sitt, hvort heldur sem var innan starfs eða utan.“ Þá verði að telja að honum hafi mátt vera það fullljóst að ummæli af þeim toga sem hann viðhafði færu gegn þeim gildum jafnréttis sem HR starfi eftir.

Samkvæmt þeim reglum sem gilda á almennum vinnumarkaði er jafnt vinnuveitanda sem starfsmanni að meginstefnu til frjálst að segja upp ráðningarsamningi af hvaða ástæðum sem er, að virtum ákvæðum um uppsagnarfrest, segir í dómnum. Síðastnefnd ákvæði voru talin virt, í tilfelli uppsagnar Kristins. Hann vildi fá 66 mánuði greidda en fékk þá ekki, heldur aðeins hefðbundinn uppsagnarfrest.

Kristinn Sigurjónsson tapaði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. HR var …
Kristinn Sigurjónsson tapaði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. HR var sýknaður af öllum kröfum hans, sem fólust meðal annars í 66 mánaðarlaunum, 57 milljónum. Freyr

Ummælin sem látin voru falla á Facebook-síðunni Karlmennskuspjallinu voru í dómnum sögð lýsa „afar neikvæðum viðhorfum til kvenna almennt“. Kristinn hafði meðal annars sagt að konur træðu sér inn á vinnustaði þar sem karlmenn vinna og eyðilegðu vinnustaðina því karl­mönnum væri gert að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerl­ing­ar, allt annað er áreiti“. Í dómnum fékkst ekki annað séð en að Karlmennskuspjall umrætt væri opinber vettvangur og því hlytu ummælin að geta ratað til dæmis í fjölmiðla.

Málflutningur HR er á þá leið að riftun samningssambands, eins og ráðningarsamnings, geti ekki falið í sér aðför að tjáningarfrelsi annars aðilans. Kristinn bendir í því samhengi á plagg sem undirritað var 2005 af átta íslenskum háskólarektorum, eins konar samkomulag þeirra, þar sem áréttaður er réttur starfsmanna háskóla til tjáningar og þátttöku í stjórn- og félagsmálum utan skólans, „án þess að að það bitni á árangursmati, framgangi eða starfskjörum.“ Þetta samkomulag rektora frá 2005 var ekki talið gilt sem lögverndaður réttur Kristins, enda talið „almenns eðlis“ en ekki eiga sérstaklega við ráðningarsamninga.

Tjáningarfrelsi Kristins var takmarkað með uppsögninni

Dómurinn féllst á að með Kristni að tjáningarfrelsi hans var í reynd takmarkað. Talið er þó að takmörkunin hafi verið innan ramma laga, enda hafi uppsögnin farið fram innan þess ramma sem ráðningarsamningur aðila, kjarasamningur og löggjöf á sviði almenns vinnuréttar og óskráðrar meginreglur vinnuréttar settu henni og „stefnanda mátti veri það ljóst að hann starfaði á almennum vinnumarkaði.“ 

Takmörkunin á tjáningarfrelsi Kristins, sem fólst í uppsögn hans, var í dómnum sögð hafa stefnt að lögmætu markmiði, þ.e. að verndun réttinda annarra, þar á meðal samstarfsfólks stefnanda og nemenda háskólans, til að upplifa að háskólinn starfaði í reynd eftir gildum jafnréttis. 

Aðalmeðferð máls þess sem Kristinn höfðaði gegn Háskólanum í Reykjavík …
Aðalmeðferð máls þess sem Kristinn höfðaði gegn Háskólanum í Reykjavík fór fram í júní. mbl.is/Arnþór

Kristinn byggði á þeirri meginmálsástæðu að hann hafi átt að njóta sambærilegrar réttarstöðu í starfi sínu hjá HR og opinberir starfsmenn gera og því hefðu uppsagnarákvæði átt að verka eftir því. Á það var ekki fallist og talið var að Kristni gæti ekki dulist af bréfum sem hefðu verið send árið 2005, þegar hann fluttist um starf frá Tækniskólanum við sameiningu hans við HR, að hann væri að þiggja nýtt starf hjá einkafyrirtæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert