Vinna að framtíðarsamningi við Breta

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir viðræður við Breta um samning á milli ríkjanna í kjölfar Brexit hafa varað í nokkurn tíma. Fram kom í skýrslu Financial Times í júlí að Ísland gæti tapað einna mest á því að Bretar yfirgefi Evrópusambandið án útgöngusamnings. 

„Eins og kemur fram í þessari skýrslu eigum við náttúrulega mjög mikið undir samskiptum okkar við Breta á mörgum sviðum. Þetta er okkar næstmikilvægasta viðskiptaland á eftir Bandaríkjunum,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.is. 

„Við erum ekkert að byrja á þessari vinnu. Þetta er nokkuð sem unnið hefur verið mjög ötullega að og er búið að vera forgangsmál frá því að ég kom hingað inn. Þannig að við erum eins vel undirbúin og við gætum verið á þessu stigi máls.“

Vonast til að ganga frá framtíðarsamningi á næstu misserum

„Hins vegar eigum við eftir að ganga frá framtíðarsamningi við Breta og það er það sem við stefnum á að klára á næstu mánuðum og misserum. Sem betur fer er gagnkvæmur áhugi á þessu og samstarfið hefur verið gott. Það er auðvitað mjög mikilvægt.“

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur lýst því yfir að Bretland muni líklega ganga út úr Evrópusambandinu þann 31. október, með eða án samnings. Í skýrslu Financial Times eru nefndar fjölmargar afleiðingar þess að yfirgefa sambandið án samnings fyrir Breta, meðal annars lyfjaskort, truflanir á flugumferð, röðum við landamæri og skorti á innfluttum matvælum. 

Í skýrslunni eru listuð þau lönd sem verða fyrir hvað mestum áhrifum af útgöngu Breta úr sambandinu án samnings. Er Ísland þar í sjötta sæti á eftir Bretlandi, Írlandi, Lúxemborg, Noregi og Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert