Þriðji hvalurinn á nokkrum dögum

Grindhvalur í fjörunni á Vatnsleysuströnd á dögunum.
Grindhvalur í fjörunni á Vatnsleysuströnd á dögunum. Ljósmynd/Berglind Drífa

„Við fengum tilkynningu um það í gærkvöldi að það væri hvalur þarna í fjörunni og við fórum á staðinn og lögðum mat á aðstæður. Þá var hann nýbúinn að taka síðasta blásturinn þarna og var dauður.“

Þetta segir Jóhann Ingimar Hannesson, stjórnarmaður í Björgunarsveitinni Skyggni á Vatnsleysuströnd, en tilkynnt var um grindhval sem rekið hefði á land við Minni-Vatnsleysu á tíunda tímanum í gærkvöldi.

Jóhann segir að þegar ljóst hafi verið að hvalurinn væri dauður hafi málið færst frá Umhverfisstofnun til Sveitarfélagsins Voga. Haft hafi verið samband við sveitarfélagið sem hafi óskað eftir því að björgunarsveitin fjarlægði hræið.

„Við drógum hræið út á haf og sökktum því þar,“ segir Jóhann. Náttúran sé látin sjá um málið eftir það. Þetta í þriðja skiptið á undanförnum dögum sem grindhval rekur á land á Vatnsleysuströnd. Einum hval var bjargað en tveir hafa drepist.

Talsvert hefur verið um það að undanförnu að grindhvali hafi rekið á land við Ísland eða lent í vandræðum í sjávarmálinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert