Þoturnar ekki í notkun á þessu ári

Flugáætlun Icelandair til ársloka hefur verið uppfærð en félagið gerir ekki ráð fyrir því að Boeing 737 MAX-vélar þess verði komnar í notkun fyrir þann tíma og tekur uppfærð flugáætlun mið mið af því og annarri þróun á markaði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair en í gær hafði Ríkisútvarpið eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra flugfélagsins, að hann hefði tröllatrú á Boeing 737 MAX-vélunum og að hann ætti von á að þær yrðu komnar í notkun í október.

Fram kemur í fréttatilkynningunni að heildarsætaframboð Icelandair í nóvember og desember verði aukið um tæplega 3% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Sætaframboð til Evrópu verði einnig aukið töluvert, til að mynda til Kaupmannahafnar, Dublin, Brussel og Berlínar. Heildarsætaframboð til Norður-Ameríku dragist hins vegar saman milli ára sem skýrist aðallega af fækkun áfangastaða frá fyrra ári eins áður hafi verið greint frá áður. Þá verði Portland ekki hluti af vetraráætlun félagsins en flug þangað hefjist aftur næsta vor. Þrátt fyrir þetta verði aukning á sætum til ákveðinna áfangastaða í Norður-Ameríku, svo sem Minneapolis, Vancouver, Denver og Orlando.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eins og fram hefur komið hefur félagið lagt megináherslu á fjölgun farþega á mörkuðunum til og frá Íslandi undanfarin misseri. Félagið hefur aldrei flutt fleiri farþega til og frá Íslandi á tímabilinu frá 1. janúar og til loka júlí en á þessu ári, eða rúmlega 1,4 milljónir farþega, sem er aukning um 26% milli ára,“ segir enn fremur.

Viðræður við Boeing um að fá allt tjónið greitt

„Leigusamningur einnar af þeim fimm flugvélum sem félagið bætti við flota sinn í sumar, til að lágmarka tjón félagsins og áhrif kyrrsetningarinnar á farþega og íslenska ferðaþjónustu, hefur verið framlengdur út október nk. Aðrir leigusamningar um flugvélar, sem gerðir voru vegna kyrrsetningar MAX vélanna, verða ekki framlengdir.“

Þá er rifjað upp að í uppgjöri annars ársfjórðungs hjá Icelandair hafi áætluð fjárhagsleg áhrif af kyrrsetningu Boeing 737 MAX-vélanna metin á um 140 milljónir dollara miðað við að kyrrsetningin stæði út októbermánuð. Ekki liggi fyrir að svo stöddu hver viðbótaráhrif vegna þessara breytinga verði. Félagið eigi í viðræðum við Boeing um að fá allt fjárhagslegt tjón sem hlotist hafi af kyrrsetningu vélanna bætt.

mbl.is