Launahækkanir ríkisforstjóra „sláandi“

Þorsteinn Víglundsson kallar eftir því að ríkið móti sér heildstæða …
Þorsteinn Víglundsson kallar eftir því að ríkið móti sér heildstæða kjarastefnu um ríkisstofnanir og að stjórnir verði kallaðar til ábyrgðar ef þær fylgi henni ekki eftir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst mest sláandi við þetta hvað það er við fyrstu sýn mikið ósamræmi í launaákvörðunum eftir fyrirtækjum. Það er merkilegt að sjá að það virðist ekki vera nein samræmd stefna ríkisins hvað varðar þessi mál,“ segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is um launahækkanir ríkisforstjóra síðan laun þeirra voru færð undan kjararáði til stjórna viðkomandi stofnunar.

Laun for­stjóra hjá rík­is­stofn­un­um hafa hækkað um nán­ast fjórðung síðan ákv­arðanir um laun þeirra voru færðar frá kjararáði til stjórna þeirra fyrirtækja sem for­stjór­arn­ir stýra fyr­ir tæp­um tveim­ur árum. Í mörgum tilvikum er um gríðarlega miklar hækkanir að ræða.

Þetta kom fram í svari fjár­mála- og efna­hags­ráðherra við fyr­ir­spurn Þor­steins. Laun for­stjóra rík­is­stofn­ana hafa hækkað um rúm­lega 23% að meðaltali síðan í lok júní árið 2017. Launa­ákv­arðanir voru færðar frá kjararáði 1. júlí 2017. Kjararáð var svo lagt al­veg niður um mitt síðasta ár.

Svarið sýnir hvernig tilmælum hefur verið hlýtt eða ekki hlýtt

„Tilmælum var beint til fyrirtækja á sínum tíma þegar launaákvarðanir voru færðar undan kjararáði að stjórnir fyrirtækjanna gættu hófs. Það sést auðvitað af þessum dæmum hvernig þeim tilmælum hefur verið hlýtt,“ segir Þorsteinn.

Hann kallar eftir því að ríkið móti sér launastefnu sem ríkisstofnunum verði gert að fylgja og að stjórnir verði kallaðar til ábyrgðar ef þær geri það ekki.

Ekki ásættanlegt að hvert ríkisfyrirtæki keyri sjálfstæða stefnu

Spurður hvað hafi komið honum mest á óvart nefnir hann launahækkun bankastjóra Landsbankans sem nam um 80% á tveggja ári tímabili. „Auðvitað er það sláandi þegar það er verið að kalla ítrekað eftir því að hófs sé gætt,“ segir hann og bætir við:

„Þannig ég held í það minnsta vera augljóst að ríkið verði að móta sér miklu stífari viðmiðun. Það getur ekki verið ásættanlegt að ríkisfyrirtæki keyri sjálfstæða stefnu hvert fyrir sig.“

Ætlar að fylgja málinu eftir á Alþingi

Laun forstjóra Íslandspósts ohf., stofnunar sem hefur verið í miklum rekstarerfiðleikum síðustu ár, hækkuðu um 685 þúsund krónur frá júní 2017 til apríl 2019.

„Það er athyglisvert út af fyrir sig miðað við þunga rekstrarstöðu fyrirtækisins sem hefðu átt að vera forstjóra og stjórn félagsins ljós á þessum tímapunkti,“ segir Þorsteinn sem íhugar núna hvernig best sé að fylgja málinu eftir á Alþingi.

Ekkert var gert til að lægja kjarasamningaöldur

Þor­steinn spurði einnig um launa­breyt­ing­ar hjá rík­is­for­stjór­um í kjöl­far bréfs sem ráðherra sendi 12. fe­brú­ar síðastliðinn til stjórna allra fyr­ir­tækja í rík­is­eigu og Banka­sýslu rík­is­ins vegna launa­hækk­ana fram­kvæmda­stjóra. 

„Það sem kemur fram í svari við seinni fyrirspurninni er að það hefur heldur ekkert verið gert til þess að lagfæra það þrátt fyrir þá miklu ólgu sem kom upp í tengslum við kjarasamninga í vor þegar ljóst var hvað var verið að hækka ríkisforstjóra mikið í launum,“ bætir hann við.

mbl.is