Útkall vegna brimbrettakappa

Það var í fjörunni vestanmegin í firðinum, til hægri á …
Það var í fjörunni vestanmegin í firðinum, til hægri á mynd, sem brimbrettakapparnir kváðu hafa komist í hann krappan. Þeir komust í land af sjálfsdáðum. Skjáskot/Google Maps

Björgunarsveitir á Ólafsfirði og Siglufirði voru kallaðar út núna síðdegis vegna brimbrettakappa sem voru komnir í ógöngur við fjöruna við Kleifarveg í Ólafsfirði. Þeir komust sjálfir í land og útkallið var þá afturkallað.

Einhverjir viðbragðsaðilar voru þegar komnir á staðinn þegar brimbrettamönnunum tókst að komast í land af sjálfsdáðum upp úr klukkan fimm. Mennirnir voru samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu þrír að tölu. Ekkert er vitað um ástand þeirra en þeir eru hvað sem öllu líður komnir á þurrt.

mbl.is