Tveir dómarar við Hæstarétt að hætta

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tveir dómarar við Hæstarétt Íslands hafa beðist lausnar frá störfum, þeir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. Þeir munu láta af störfum 1. október næstkomandi, samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra dómsmála tilkynnti ríkisstjórninni um lausn þeirra frá embætti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Einungis einn dómari verður skipaður í þeirra stað, en staðið hefur til að fækka dómurum við Hæstarétt Íslands frá því að lög um hið nýja millidómsstig, Landsrétt, voru samþykkt.

Átta dómarar eru við réttinn nú, en þeir verða sjö talsins þegar búið verður skipa eftirmann þeirra Markúsar og Viðars.

Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíason.
Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíason. Ljósmynd/Hæstiréttur Íslands

Báðir eru þeir Markús og Viðar fæddir árið 1954 og því 65 ára á árinu sem er að líða. Markús var skipaður hæstaréttardómari árið 1994, en Viðar Már árið 2010.

Báðir hafa þeir gegnt embætti varaforseta Hæstaréttar og Markús embætti forseta dómstólsins.

Frá upphafi árs 2012 og til loka árs 2016 voru þeir settir í embætti forseta og varaforseta réttarins, Markús var þá forseti og Viðar varaforseti.

mbl.is