Ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnabrot

Voru þeir báðir handteknir við komuna til landsins á Keflavíkurflugvelli.
Voru þeir báðir handteknir við komuna til landsins á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Þrír ungir Íslendingar hafa verið ákærðir fyrir að flytja rúm 16 kíló af kókaíni í gegnum Keflavíkurflugvöll í maí. Mennirnir eru fæddir árin 1996 og 1999 og hafa ekki áður komið við sögu hjá lögreglu, að því er segir í frétt Vísis.

Héraðssaksóknari hefur ákært mennina fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í félagi staðið að innflutningi á 16,2 kílóum af kókaíni ætluðu til sölu og dreifingar í ágóðaskyni.

Tveir mannanna flugu til Frankfurt í Þýskalandi 10. maí og tóku lest til Amsterdam í Hollandi, að fyrirmælum þess þriðja og annars ónafngreinds aðila. Í Amsterdam hittu þeir þvo óþekkta aðila og fengu tvær ferðatöskur þar sem fíkniefnin voru falin undir fölskum botni.

Tóku þeir aftur lest til Frankfurt þar sem þeir innrituðu töskurnar með fíkniefnunum í flug til Keflavíkur. Yfirvöld á flugvellinum í Frankfurt fundu fíkniefnin í tösku annars þeirra og yfirvöld á Keflavíkurflugvelli í tösku hins. Voru þeir báðir handteknir við komuna til landsins á Keflavíkurflugvelli.

Sá þriðji sem ákærður er málinu er sagður hafa fengið hina tvo til að flytja inn fíkniefnin, látið þá hafa peninga til að kaupa flugmiða og gistingu og gefið þeim fyrirmæli.

mbl.is