Fjölbreytnin aukist frekar en hitt

„Annar misskilningur sem orðið er vart við er varðandi umhverfissporið,“ ...
„Annar misskilningur sem orðið er vart við er varðandi umhverfissporið,“ segir Benjamín. mbl.is/​Hari

„Ég fagna allri umræðu, en það kemur bersýnilega í ljós í umræðunni að fólk er ekki með allar staðreyndir á reiðum höndum,“ segir Benjamín Sigurgeirsson, formaður Samtaka grænkera á Íslandi.

Samtökin sendu nýlega frá sér áskorun þar sem skorað er á ríki og sveitarfélög að minnka eða hætta alveg að bjóða upp á afurðir úr dýraríkinu í mötuneytum sínum. Áskorunin hefur vakið mikla athygli og segir Benjamín samtökin ekki endilega hafa búist við svo miklum viðbrögðum.

„Var það ekki Eyþór Arnalds sem sagði að nú ætlaði meirihlutinn [í borgarstjórn Reykjavíkur] að bjóða upp á próteinminna fæði? Það er ekkert sem segir að grænkerafæði sé próteinsnauðara en kjöt og fiskur. Það er fullt af mat úr plönturíkinu sem er mjög próteinríkur svo það er rangt að halda þessu fram,“ segir Benjamín.

Þá beri líka á því að fólk tali um að með því að draga úr neyslu á dýraafurðum minnki fjölbreytni í mataræði. „Fyrir mig og marga grænkera er það þannig að með því að draga úr og hætta neyslu dýraafurða eykst fjölbreytnin frekar en hitt.“

„Annar misskilningur sem orðið er vart við er varðandi umhverfissporið. Það eru margir sem halda að allt sem er framleitt á Íslandi hafi minna kolefnisspor heldur en það sem er innflutt en það er ekki rétt. Dýraafurðir sem eru framleiddar hérlendis hafa mun meira kolefnisfótspor heldur en innflutt plöntufæði. Að öðru leyti er auðvitað fínt að styðja við íslenska framleiðslu, allavega grænmetisframleiðslu, en flutningurinn sjálfur er mjög lítið hlutfall kolefnissporsins,“ segir Benjamín að lokum og vonar að ríki og sveitarfélög taki áskorun samtakanna alvarlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina