„Ég veit þetta er svartur húmor, þannig er ég“

Ingibjörg Rósa segist hafa sagt fyrsta brandarann um krabbameinið sitt ...
Ingibjörg Rósa segist hafa sagt fyrsta brandarann um krabbameinið sitt viku eftir að hún greindist með brjóstakrabbamein. Nú er hún með uppistand þar sem hún deilir með fólki ýmsum skondnum hliðum þess að greinast með krabbamein og því að fara í gegnum krabbameinsmeðferð. Ljósmynd/Aðsend

„Edinborgarhátíðin er stærsta listahátíð heims sem haldin er árlega í ágúst hér í Edinborg. Innan hennar eru margir flokkar, meðal annars Edinburgh Fringe sem inniheldur jaðarlistir og stór hluti af því er uppistand. Núna vorum við nokkur íslensk sem komum þar fram, Ari Eldjárn, Bylgja Babýlons, Snjólaug Lúðvíksdóttir og Laufey Haraldsdóttir,“ segir Ingibjörg Rósa Björnsdóttir uppistandari, sem býr í Edinborg og var á hátíðinni með níu sýningar á Sense of Tumour, uppistandi þar sem hún deilir með fólki ýmsum skondnum hliðum þess að greinast með krabbamein og því að fara í gegnum krabbameinsmeðferð.

Ingibjörg Rósa lauk lyfjameðferð um miðjan júní, var í geislameðferð allan júlímánuð og fór í síðustu geislana í byrjun ágúst, daginn sem Edinborgarhátíðin hófst.

„Ég tók tvær vikur í að hvíla mig aðeins en steig svo á svið með fyrstu sýninguna mína á afmælisdegi móður minnar 17. ágúst,“ segir Ingibjörg Rósa sem greindist um síðustu jól með brjóstakrabbamein og hóf meðferð í janúar.

„Áður en ég byrjaði í lyfjameðferð var ég farin að hugsa alls konar fyndna krabbameinsbrandara, en ég fékk þessa brjálæðislegu hugmynd í byrjun febrúar að halda eina sýningu. Ég prófaði að fara í það sem kallað er „open mic“, en þá fær maður aðeins 5 mínútur, sem er of stutt, því fólk fær svo mikið sjokk um leið og ég byrja að tala um að ég sé með krabbamein. Það þarf lengri tíma og atrennu til að fá fólk til að slaka á og fá það til að hlæja að krabbameininu mínu, því ég er auðvitað að gera grín að mínu krabbameini og minni meðferð, mínum viðbrögðum og hugsunum. Ég er ekki að gera grín að krabbameini yfirhöfuð, enda ekkert fyndið við það.“

Með uppistandsvinum á Edinborgarhátíð. F.v. Ari Eldjárn með dóttur sína ...
Með uppistandsvinum á Edinborgarhátíð. F.v. Ari Eldjárn með dóttur sína Arneyju Díu Eldjárn í fanginu, Ingibjörg Rósa, Snjólaug Lúðvíksdóttir, Bylgja Babýlons, Jóhann Alfreð Kristinsson og Jakob Birgisson. Ljósmynd/Aðsend

Hjálpaði í veikindunum

Ingibjörg vildi líka í sýningunni sinni koma á framfæri ýmsum upplýsingum sem fólk gerir sér ekki grein fyrir sem hefur ekki farið í gegnum þá reynslu að greinast með krabbamein.

„Mér finnst að aðstandendur þurfi að vita hvað maður er að pæla þegar maður er staddur í þessu ferli, til dæmis hvaða aukaverkanir geta komið upp í lyfjameðferð aðrar en hárlos og uppköst. Sýningin mín er því ekki hefðbundið uppistand heldur flokkast hún sem uppistand með frásögn. Það koma nokkrir kaflar þar sem fólk er ekki að hlæja heldur er ég að segja frá því á léttan hátt í hverju ég lenti og hvað ég upplifði. Eitt af því sem ég þurfti að pæla í var hvernig ég gæti undirbúið það að segja mögulega skilið við þetta jarðlíf. Þá komu upp mjög furðulegar hugsanir, og sumar ekkert rökréttar. Ég geri mér grein fyrir að þessi sýning inniheldur mjög svartan húmor, en þannig er ég,“ segir Ingibjörg og bætir við að það hafi klárlega hjálpað henni heilmikið í því að takast á við veikindin að velta fyrir sér skondnu hliðunum á þeim og semja efni fyrir sýninguna Sense of Tumour.“

Uppistand um krabbameinið mitt

„Ég bý ein hér í Edinborg en fjölskyldan mín er heima á Íslandi og ég hef aldrei viljað að fólk hafi of miklar áhyggjur af mér, ekki heldur þegar ég er með krabbamein. Það var erfitt fyrir einbúa eins og mig að þurfa aðstoð, þiggja það að fólk kæmi til mín og hjálpaði mér. Ég notaði húmor til að fólk hefði ekki áhyggjur af mér, en líka til að koma ákveðnum upplýsingum á framfæri, hvernig staðan væri hverju sinni og hvað væri að gerast og hvernig mér liði. En ég gerði samt grín að því,“ segir Ingibjörg Rósa. 

Ingibjörg Rósa segist hafa sagt fyrsta brandarann um krabbameinið sitt viku eftir að hún greindist með brjóstakrabbamein.

„Þetta var um jólin og það kom upp sú staða að það gat verið að krabbameinið væri búið að dreifa sér út í eitla. Tekin voru vefjasýni og ég þurfti að bíða eftir niðurstöðum fram yfir jólin. Staðan varð því dekkri heldur en í upphafi og á gamlarskvöld var ég komin til Íslands og var hjá systur minni. Ég hafði keypt mér rosa flottan rándýran kjól fyrir kvöldið og systir mín hrósaði honum í hástert þegar ég var komin í hann, en þá sagði ég: „Góðu fréttirnar eru að ef ég dey, þá getur þú fengið kjólinn í arf.“ Systur minni fannst þetta ekki fyndið. Þarna var ég í raun að reyna að segja henni að ég vissi að ef allt færi á versta veg, þá væri tíminn sem ég hef styttri en ég hélt. En ég var líka að segja við hana að hún yrði að gera sér grein fyrir að þetta væri möguleiki, að hún mætti ekki vera í afneitun. En það var kannski aðeins of fljótt að fara að gantast með þetta.“

Fyrir myndatöku á auglýsingamiða fékk Ingibjörg Rósa dragdrottningu í Edinborg ...
Fyrir myndatöku á auglýsingamiða fékk Ingibjörg Rósa dragdrottningu í Edinborg til að mála sig. Umbreytingarferlið, förðun og myndataka tók um fimm klukkustundir. Ljósmynd/Aðsend

Gefandi að sjá hana hlæja

Ingibjörg segist á sýningunni koma fram án alls gervis heldur með sitt krabbameinsútlit og hárlausa höfuð.

„Þegar ég sýndi hér úti vissi fólk sem kom á sýninguna um hvað hún fjallaði því það kom fram á plakötunum mínum og auglýsingamiðum. Vissulega var smá spenna í loftinu í upphafi hverrar sýningar en ég sýndi í góðum sal þar sem voru sófar og fólk gat slakað vel á. Ég fékk uppistandsvini mína til að hita upp fyrir mig, Ari Eldjárn gerði það tvisvar og líka Snjólaug og Bylgja og nokkrir uppistandarar líka frá Edinborg, til að fá fólk til að slaka á áður en ég byrjaði.“

Ingibjörg segir að margir hafi komið að máli við hana eftir sýningar til að lýsa yfir ánægju, t.d. hjúkrunarfræðingur sem vinnur á krabbameinsdeild og maður sem missti mömmu sína úr krabbameini og gat tengt við ýmislegt í sýningunni. „Meðal gesta var kona sem er með ólæknandi krabbamein og hún skellihló allan tímann, skildi þetta allt mjög vel af því hún hefur sjálf gengið í gegnum þetta. Það var mjög gefandi að sjá hana hlæja,“ segir Ingibjörg, sem vissi heilmikið um brjóstakrabbamein áður en hún greindist, þar sem hún á vinkonu sem hefur greinst tvisvar.

„Í fyrra skiptið fór ég með henni inn í starfsemina hjá Krafti, félagi ungs fólks sem hefur greinst, og ég var þar í stjórn um tíma. Ég tel mig því hafa verið vel upplýsta, en ekkert býr mann undir þessa meðferð, til dæmis svona hrikalega þreytu, að hafa ekki orku til að fara fram úr rúminu, að verða móð við að fara upp örfáar tröppur. Eitthvað hversdagslegt sem var ekkert mál verður stórmál,“ segir Ingibjörg, sem hlakkar til að koma heim og vera með uppistand.“

Ingibjörg verður með tvær sýningar á Sense of Tumour heima á Íslandi, í The Secret Cellar, Lækjargötu 6, 12. sept og 15. sept. Sýningin verður á ensku eins og á Fringe hátíðinni. Ágóðinn rennur til Krafts, til minningar um vinkonu hennar Ingveldi Geirsdóttur.

Viðtalið birtist í Morgunblaðinu 31. ágúst
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »