Indlandsforseti í Íslandsheimsókn

Ram Nath Kovind, forseti Indlands kemur til Íslands á mánudag.
Ram Nath Kovind, forseti Indlands kemur til Íslands á mánudag. AFP

Forseti Indlands Ram Nath Kovind og Savita Kovind forsetafrú koma í ríkisheimsókn til Íslands í næstu viku ásamt fylgdarliði. Gert er ráð fyrir að þau komi til landsins á mánudag og haldi síðan af landi brott miðvikudaginn 11. september, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá forsetaskrifstofu.

Heimsóknin hefst með formlegri móttökuathöfn á Bessastöðum þriðjudaginn 10. september klukkan 10. Forseti mun síðan eiga fund með forseta Indlands og í kjölfarið verða undirrituð minnisblöð með samkomulagi milli ráðuneyta landanna að forsetunum viðstöddum.

Forsetarnir munu að því loknu ávarpa fjölmiðla, en því næst heldur forseti Indlands í Háskóla Íslands þar sem hann mun flytja fyrirlestur opinn almenningi um áherslu Indlands og Íslands á umhverfismál. Mun sá fyrirlestur hefjast klukkan 12 á hádegi. Þess má geta að Kovind forseti starfaði sem hæstaréttarlögmaður og ríkislögmaður áður en hann hóf þátttöku í stjórnmálum.

Síðdegis mun forseti Indlands heimsækja höfuðstöðvar Marels í Garðabæ og kynna sér starfsemi fyrirtækisins en forsetafrúin mun skoða umhverfisvæna grænmetisræktun hjá Lambhaga og fræðast um starfsemi Mjólkursamsölunnar.

Að kvöldi þriðjudagsins verður forsetahjónunum svo boðið til hátíðarkvöldverðar í boði forseta og forsetafrúar á Bessastöðum.

Á miðvikudegi munu forsetahjón Indlands skoða þjóðgarðinn á Þingvöllum og sitja svo hádegisverð í boði Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra en halda af landi brott að því loknu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert