Kortaþjófar komnir aftur til landsins

Mennirnir voru látnir lausir í gær, en þeim er gert …
Mennirnir voru látnir lausir í gær, en þeim er gert að tilkynna sig til lögreglu þrisvar í viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír menn frá Rúmeníu, sem gefið er að sök að hafa stundað kortaþjófnað hér á landi í fyrra, voru handteknir af lögreglu á föstudag. Mennirnir stálu íslenskum kortum með kerfisbundnum hætti og tóku samtals út af þeim um milljón króna í íslenskum hraðbönkum og verslunum.

Greint er frá málinu á Vísi, en þar segir að verslunareigandi á höfuðborgarsvæðinu hafi kannast við mennina og gert lögreglu viðvart. Talið er mögulegt að mennirnir hafi verið hingað komnir í sömu erindagjörðum.

Að sögn Skúla Jónssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafa engin ný mál komið inn á borð lögreglu vegna mannanna, sem komu til landsins á fimmtudagsmorgun.

Mennirnir voru látnir lausir í gær, en þeim er gert að tilkynna sig til lögreglu þrisvar í viku.

„Það er stefnt að því að reyna að gefa út ákæru sem fyrst, og svo vonandi sem fyrst að það gangi dómur í málinu, svo að þeim verði bara brottvísað með endurkomubanni til Íslands að því loknu, þegar menn hafa lokið sinni afplánun, hver sem hún verður. Maður veit svosem ekki hver dómur verður, það á algjörlega eftir að koma í ljós. Allt tekur þetta náttúrlega tíma,“ segir Skúli.

mbl.is

Bloggað um fréttina