Óvissa annað orð yfir framtíð

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setur Alþingi í dag.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setur Alþingi í dag. mbl.is/​Hari

„Við verjum okkar hag og höldum áfram að láta rödd okkar heyrast á alþjóðavettvangi, rödd friðar og frelsis, framfara og jafnréttis. En við stjórnum ekki gangi heimsmála, ákvarðanir ytra hafa ætíð haft áhrif hér og munu gera það áfram.“

Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, meðal annars í ræðu sinni við setningu Alþingis í dag. Óskaði hann alþingismönnum velfarnaðar í vandasömu starfi og sagðist vona að stórhugur ríkti í þinginu. „Megi ykkur auðnast að sýna sanngirni, háttvísi og lipurð í mannlegum samskiptum, virða ólíkar skoðanir og sjónarmið en standa líka fast á eigin sannfæringu og halda fram eigin málstað, í þjóðarþágu.“

Hins vegar yrði eflaust tekist á í þingsalnum í vetur. „Það yrðu þó engin tíðindi, til þess er hann gerður. Ágreiningur einkennir öflugt þing og öflugt samfélag, bann við honum er haldreipi hinna þröngsýnu og kúgunartól harðstjóranna.“

Stundum ekkert að óttast nema þá óttaslegnu

Forsetinn sagði í ræðu sinni bjartsýni enn fremur ríkja í öflugu samfélagi, ekki biturð og beiskju, ólund eða ótta. „Vissulega er alltaf svo margt sem þarf að gera betur og vissulega vitum við aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Áföll geta dunið yfir að óvörum, það þekkjum við Íslendingar af langri reynslu í návígi við náttúruöflin.“

Ráðherrarnir Ásmundur Einar Daðason og Áslaug Sigurbjörnsdóttir, hlýða á ávarp ...
Ráðherrarnir Ásmundur Einar Daðason og Áslaug Sigurbjörnsdóttir, hlýða á ávarp forseta. mbl.is/​Hari

Óvissa væri hins vegar í raun annað orð yfir framtíð. „Satt er það að varkárni er góðra gjalda verð. Við megum varast þá andvaralausu og þá kærulausu, það sanna dæmin. En við megum líka varast þá kvíðafullu, þá hræddu og þá reiðu. Þær stundir geta einmitt komið að við höfum ekkert að óttast nema þá óttaslegnu.“

Hugrekki ekki að hlusta á þá sem hafa hæst

Full ástæða væri til þess að vera bjartsýn og um leið hugrökk. Hugrekki fælist hins vegar ekki í því að bugta sig og beygja fyrir þeim sem hefðu hæst, þeim sem létu formælingar fjúka í stað raka og skynsamlegra skoðanaskipta. „Sómakært fólk má líka íhuga í hvaða félagsskap það getur endað, hvernig hófstilltur og röggsamur málflutningur getur umhverfst í öfgar og útúrsnúning í meðförum annarra.“

Lýðræðishefðin væri best varin „með rökræðu og hlustun og endurmati, ekki með yfirgangi, þótta og skoðanahroka“. Þá minntist Guðni á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og sagði ljóst að landið væri að margra mati í þjóðbraut á ný. „Þá ríður á að greina milli varkárni og tortryggni, standa fast á sínu en óttast ekki umheiminn.“

mbl.is/​Hari
mbl.is