Í fyrsta sinn í sund á Íslandi

Hópurinn lét vel af heimsókninni að útitaflinu við Gömlu höfnina …
Hópurinn lét vel af heimsókninni að útitaflinu við Gömlu höfnina í Reykjavík. Heiðbjört Ingvarsdóttir prjónaði þessa vel klæddu bangsa fyrir hópinn. Ljósmynd/Aðsend

Hópur ellefu ára barna úr þorpum Austur-Grænlands hefur undanfarna daga dvalið á Íslandi ásamt kennurum og fylgdarliði í boði Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands. Er þetta fjórtánda árið í röð sem félagið býður fimmtubekkingum frá Grænlandi hingað til lands til að læra sund og kynnast íslenskri menningu, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.

Engar sundlaugar eru á Austur-Grænlandi og því mikil viðbrigði fyrir börnin að komast í laugarnar hérlendis, en börnin njóta handleiðslu þrautreyndra sundkennara, Haraldar Erlendssonar og Guðrúnar Eiríksdóttur, í Salalaug í Kópavogi, milli þess sem þau sækja tima með jafnöldrum sínum í Vatnsendaskóla. Kópavogsbær, menntamálaráðuneytið og Flugfélag Íslands hafa frá upphafi stutt verkefnið og koma börnin, að sögn, jafnan flugsynd aftur til síns heima. 

Ljósmynd/Aðsend

Á sunnudag hélt skákfélagið Hrókurinn hátíð til heiðurs hópnum, en Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins, er jafnframt stjórnarmaður í Kalak og sannur vinur Grænlendinga. Hátíðin var haldin í Pakkhúsi Hróksins við Reykjavíkurhöfn, og var boðið upp á steiktar pylsur og vöfflur, auk þess sem Hrafn tefldi við börnin og pólska listakonan Marta Straworowska teiknaði listaverk fyrir börnin. 

Hópurinn dvelur hér í tvær vikur og mun í komandi viku meðal annars heimsækja Alþingi og KSÍ, auk þess sem forseti Íslands býður þeim til móttöku á Bessastöðum. Þá hafa þau þegar farið Gullna hringinn og stigið á hestbak í boði Íslenska hestsins, en enginn beygur mun hafa verið í börnunum þótt ekkert þeirra hafi áður séð hest.

Helsti umsjónarmaður verkefnisins er Stefán Herbertsson fyrrverandi formaður Kalak, sem einmitt átti hugmyndina að verkefninu fyrir fimmtán árum, en aðrir stjórnarmenn og Hróksliðar leggja líka sitt af mörkum. Þá hefur Kalak í þessu verkefni notið góðs af veitingum frá MS, Íslensku grænmeti, Kjarnafæði, Bakarameistaranum, Brim, Dominos o.fl.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert