Framtíðin ræðst af styrkleika menntakerfis

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í fjármálaráðuneytinu í dag.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í fjármálaráðuneytinu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Helstu áherslurnar sem við höfum verið að ráðast í eru aðgerðir til að bæta starfsumhverfi kennara og nýliðun,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, við mbl.is eftir kynningarfund þar sem ný skýrsla OECD um Ísland var kynnt. 

Lilja segir að það þurfi að styrkja menntakerfið enn frekar en menntamál eru sérstakur áhersluþáttur í skýrslunni að þessu sinni. 

Menntunarstig og atvinnuþátttaka er há á Íslandi en í skýrslunni koma fram ýmsar ráðleggingar um hvernig bæta megi menntakerfið. Þær snúa meðal annars að leiðum til þess að stuðla betur að nýtingu hæfni svo koma megi í veg fyrir aukið ójafnvægi á vinnumarkaði, auka samspil og samvinnu menntakerfis og atvinnulífs og hvetja til endurmenntunar, ekki síst hjá þeim sem ekki eru langskólagengnir.

Lilja segir að nú þegar hafi verið ráðist í aðgerðir á háskólastiginu, þar sem fjármögnun hefur verið aukin þannig að Ísland nálgast meðaltal OECD-ríkja, sem var eitt af því sem tekið var fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

„Við erum líka að skoða fjármögnum í samstarfi við sveitarfélögin. Við sjáum hjá kennurunum okkar að byrjunarlaunin þeirra eru yfir meðaltali en svo er aukningin ekki eins mikil,“ segir Lilja.

Hún bendir á að kennarar í sumum ríkjum OECD geti hækkað um 40% í launum. „Það er ekki svo hjá okkur. Þú ert með svipuð laun þegar þú kemur inn og þegar þú ferð út. Þetta er eitthvað sem ég vil skoða með sveitarfélögunum.“

Lilja er ánægð með öflugt leikskólastig sem hún telur að muni nýtast vel til framtíðar. Um 75% barna eru í leikskóla en meðaltal OECD-ríkja er 40%. „Það eru miklir styrkleikar í kerfinu og við eigum að vinna áfram með þá og bæta ofan á þá. Ég er á því að framtíð Íslands muni ráðast af því hversu sterkt menntakerfið er.“

Ráðherra segir að þetta snúist að miklu leyti um lestur. „Þetta er bara lestur og aftur lestur,“ segir Lilja sem fór yfir í framsögu sinni hversu mikilvægur yndislestur væri til að auka orðaforða sem síðan leiddi til betri árangurs í námi. 

Hún leggur mikla áherslu á að börn með annað móðurmál en íslensku hljóti betri íslenskukennslu og hefur sett á laggirnar vinnuhóp til að kortleggja kennsluna á landsvísu til að allir séu samstiga.

Lilja vék stuttlega að slæmum árangri nemenda í Pisa-könnunum. Spurð hvað væri hægt að gera til að ná betri árangri þar var svarið einfalt: „Lesa. Við þurfum öll sem þjóð að leggja áherslu á að dýpka lesskilning og að börnin okkar búi yfir þeirri færni að þau geti leyst svona próf. Ég er sannfærð um að það er meiri geta þarna. Við þurfum að tala um hvað menntun skiptir miklu máli og hvað það er frábært að tilheyra samfélagi þar sem menntun er mikils metin.“

mbl.is