Ábyrgð stjórnvalda eða „ódýr pólitík“

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar. mbl.is/Hari

Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að bregðast við núna?“ spurði Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, þar sem hún ræddi ástandið á bráðamóttöku Landspítala á Alþingi í morgun. Hún sagði að það yrði að grípa til aðgerða áður en stórslys yrði.

Fram kom í Morgunblaðinu á mánudag að atvikum þar sem eitthvað hefði farið úrskeiðis við meðhöndlun sjúklinga á bráðamóttöku Landspítala hefði farið fjölgandi. Mikið álag hef­ur verið á bráðamót­tök­unni að und­an­förnu, sér­stak­lega vegna þess að ekki hef­ur verið hægt að vísa sjúk­ling­um sem fengið hafa þjón­ustu á aðrar deild­ir spít­al­ans.

Helga Vala sagðist ekki vera viss um hvort Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði orðið var við lýsingar sjúklinga og starfsfólks á aðstæðum á bráðamóttökunni. „Þar sem ráðherrann heldur um veskið er nauðsynlegt að hann átti sig á ábyrgð sinni og þeirri hættu sem fyrir hendi er.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/​Hari

Sakar Helgu Völu um „ódýra pólitík“

Bjarni lýsti furðu sinni á því hvernig Helga Vala heimfærði ábyrgð af rekstri opinberrar stofnunar. Þingmenn væru ekki í daglegum rekstri opinberra stofnana, hvað þá heilbrigðisstofnana. Hann sagði Helgu Völu koma aftan úr einhverri forneskju þegar hún færði rök fyrir því í þingsal að fjármálaráðherra væri með peningavaldið; það væri Alþingi.

Við erum með stjórnendur á stofnunum sem eru í samtali við fagráðuneyti. Fjármálaráðuneytið er ekki þátttakandi í því samtali. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig þingmaður getur sagt hér í þingsal: Bráðadeild Landspítalans er á ábyrgð fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytis. Í þessum tilvikum ber stjórnanda stofnunarinnar að gera fagráðuneytinu viðvart og leggja til úrbætur. Fagráðuneytinu ber að svara viðkomandi stofnun innan tilskilins frests sem er skrifaður út í lögum,“ sagði Bjarni.

Hann sagðist ekki vera að gera lítið úr stöðunni og að hlustað væri á starfsfólk Landspítala. Á sama tíma væri til þess ætlast að það fólk sem treyst væri til að stjórna þessum stofnunum brygðist rétt við í samræmi við lögin.

Helga Vala sagði að stjórnvöl yrðu að opna augun, mæta á svæðið og hlusta á fagaðila á staðnum. Ekki dygi að hrópa um að þau bæru enga ábyrgð.

Tölum endilega um ábyrgð, hæstvirtur ráðherra, sem ekki vill gera samninga við hjúkrunarfræðinga þannig að núna er verið að taka vaktaálag af hjúkrunarfræðingum sem gerir að verkum að það verður fráflæðisvandi, sem gerir að verkum að bráðamóttaka Landspítala lokast. Þetta er á ábyrgð ykkar, stjórnvalda,“ sagði Helga Vala. 

Bjarni ítrekaði að stjórnendur viðkomandi stofnunar bæru gríðarlega mikla ábyrgð og mesta ábyrgð. 

Það að koma hér upp og vísa bara í fjármálaráðuneytið þegar það er rekstrarvandi í einstökum stofnunum er ódýr pólitík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert