Brýnt að skerpa á hagsmunagæslunni

Björn Bjarnason, formaður starfshópsins afhendir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra skýrsluna.
Björn Bjarnason, formaður starfshópsins afhendir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra skýrsluna. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Allir af 147 viðmælendum starfshóps um EES-samstarfið utan tveggja voru á því að samningurinn lifði góðu lífi, og að hann væri til verulegs gagns og ávinnings fyrir þá sem störfuðu innan ramma hans. Meðlimir starfshópsins segja brýnt að skerpa á hagsmunagæslu Íslands gagnvart EES-málum. 

Björn Bjarnason, sem var formaður starfshópsins, segir það hafa komið skýrt fram í vinnu hópsins að meðal viðmælenda hópsins var almennt séð jákvæð afstaða gagnvart EES-samkomulaginu og mikill áhugi á að það samstarf gæti þróast og dafnað. Þó væri auðvitað, líkt og í öðrum stórum málum, einstaka atriði sem betur mætti fara, en starfshópurinn nefndi 15 atriði sem gera þyrfti úrbætur á hér á landi.

Einn af þeim sneri að vafa um að stjórnarskrá Íslands heimilaði fulla aðild að EES-samstarfinu, en hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að sá vafi veikti stöðu Íslendinga gagnvart samstarfsríkjum okkar. „Við erum ekki í því í sjálfu sér að draga upp þær sviðsmyndir, en þessar þrjár þjóðir [Ísland, Noregur og Liechtenstein] eru misjafnlega í sveit settar, og taka á málunum á ólíkan hátt, en allar líta þannig á að það jafnvægi sem hafi skapist í samskiptum þeirra á þessu 25 ára tímabili sé eins ákjósanlegt og kostur er, og leggja ríka áherslu á að því verði ekki raskað. Þess vegna meðal annars leggjum við áherslu á að það sé nauðsynlegt að hafa ekki stjórnlagaóvissu í málum til þess að þetta jafnvægi sé,“ segir Björn.

Hann segir að það sem hópurinn leggi áherslu á sé að hagsmunagæsla Íslands gagnvart EES-málum verði gerð skarpari, þannig að menn átti sig á því að þetta er ekki síður innanríkismál en utanríkismálefni og það verði að huga vel að öllum þáttum hér heima fyrir á sama tíma og menn kynna sjónarmið Íslands ytra.

„Þess vegna leggjum við til að gera skil á milli innanlandsþáttarins og utanlandsþáttarins, gera stjórnstöð EES-mála sem haldi utan um þetta og að menn læri af þeirri reynslu sem hafi fengist á þessum árum varðandi spurninguna á hverju geti strandað og hvaða mál það eru sem Íslendingar hafi sérstakar áhyggjur af,“ segir Björn og bætir við að í umræðum um þriðja orkupakkann hafi komið í ljós að það væru einkum auðlindir landsins og ótti við að verið væri að framselja þær. 

„Þá þarf að huga að því,“ segir Björn. „Við erum ekki í landbúnaðarsamstarfinu, við erum ekki í sjávarútvegssamstarfinu, auðlindirnar eru okkar dýrmæti og við þurfum þá að standa vörð um þær og  hafa það klárt í öllu ferlinu þegar fjallað er um slík mál. Ég held að ef að menn lesa þessa skýrslu með hliðsjón af reynslunni muni þeir að það er hægt að ná málum í gegn, það er hægt að átta sig á því mjög snemma hvaða mál það eru sem þarf að passa upp á, og það er hægt að gera ráðstafanir mjög snemma til þess að koma okkar sjónarmiðum í gegn.“

Andstaða við Evrópusambandið smitist á EES

Aðspurður um þá andstöðu sem greina hefði mátt í orkupakkamálinu við EES-samninginn, segir Björn það sína skoðun að þar hafi andstaðan við Evrópusambandið smitast yfir á EES og að mönnum finnist sambandið vera að seilast of langt, jafnt innan ESB-ríkjanna sem og í málefni EES.

Björn bendir á að þegar Lissabon-sáttmálinn hafi verið gerður hafi ýmsir óttast að hann myndi hafa neikvæð áhrif á EES-samkomulagið. Björn segir vissulega sé óskýrara hvort að sum mál séu EES-mál. „En á sama tíma færðist EES-málaflokkurinn ofar í goggunarröðinni innan ESB, því hann er nú í höndum utanríkisþjónustu sambandsins, sem hefur meiri áhrif innan framkvæmdastjórnarinnar en var áður. Svo það hefur ekki orðið okkur til tjóns.“

Björn Bjarnason kynnti skýrsluna fyrr í dag.
Björn Bjarnason kynnti skýrsluna fyrr í dag. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Björn segir jafnframt að fagstofnanir ESB, sem einhverjir hafi talið hættulegar hafi ekki reynst svo, en nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að í þeim felist meira svigrúm fyrir EES/EFTA-ríkin til að hafa áhrif á ákvarðanir. „Ég held að dæmin sem við nefnum í skýrslunni um lyfjastofnunina, matvælastofnunina og persónuverndarstofnunina, þau sýni að íslensku fulltrúarnir í þessum stofnunum hafa gífurlega mikil áhrif, og meiri en ætla mætti þegar menn lesa lögfræðilegu álitsgerðirnar.“

Helsta niðurstaðan sé hins vegar sú að Íslendingar þurfi að gæta sinna hagsmuna sjálfir. „Ef við viljum að eitthvað sem þurfi að halda sér fyrir okkur, þá verðum við að gera það sjálf, það mun enginn gera það fyrir okkur, en við höfum öll tækifæri til þess.“

Möguleiki að efla enn frekar norrænt samstarf

Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir vinnu starfshópsins undirstrika mikilvægi hagsmunagæslunnar. „Það sem við Íslendingar þurfum að gera er að skerpa okkar sýn á það hver okkar markmið eru og þá hvaða leiðir við getum nýtt til að ná þeim. Þetta hefur verið vanmetið í okkar samfélagi til þessa,“ segir Kristrún. Hún bendir á það að ein af tillögum nefndarinnar sé að komið verði á fót sérstakri stjórnstöð EES-mála innan stjórnsýslunnar, sem myndi fylgjast grannt með öllu er varðaði málaflokkinn á mótunar- og framkvæmdastigi.

Þá leggur hópurinn einnig til að virkjað verði norrænt lagasamstarf til meiri áhrifa við mótun ESB-löggjafar. Kristrún segir að þetta gæti skipt miklu máli, þar sem norræn samfélög eigi margt sameiginlegt, og ekki síst lagaarf og hefð fyrir samstarfi, sem geti skipt máli þegar verið er að innleiða nýja hluti. Kristrún segir að í því samhengi sé meðal annars vísað í skýrslu frá norrænu ráðherranefndinni frá 2018 eftir Inge Lorange, þar sem efnisleg og góð greining fari fram á því hvernig hægt sé að þróa áfram slíkt samstarf. 

Aðspurð um þá miklu umræðu sem skapaðist vegna þriðju orkupakkans, segir Kristrún hana hafa verið að mörgu leyti gagnlega. „Vegna þess að hve gríðarleg áhrif samningurinn hefur á Íslandi, hvað hann skiptir miklu máli, held ég að það hafi verið gott að fá þessa umræðu,“ segir Kristrún. Umræðan hafi skerpt á því hvað skipti máli í sambandi við EES-samstarfið og dregið fram hversu mikilvægt það er.

Reynslan sýnir að tekið er tillit til sjónarmiða okkar

Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur og forstöðumaður viðskiptaþróunar Íslandsstofu, segir að nefndin hafi í skýrslunni fjallað um þau tilvik þar sem Íslendingar hefðu þurft að krefjast aðlögunar. Hún segir reynsluna af þeim sýna að þegar mál komi upp sem varði mikla hagsmuni Íslendinga og málefnaleg sjónarmið liggi til grundvallar kröfum þeirra, þá sé hægt að ná fram breytingum.

„Okkur niðurstaða er að gífurlega mikilvægt sé að vel takist til að skilgreina hagsmuni Íslendinga og forgangsraða áherslumálum,“ segir Bergþóra og bætir við að það skipti máli að sjónarmiðum sé teflt fram tímanlega og á réttan hátt enda sé auðveldara að hafa áhrif á þróun mála þegar mál hafa ekki verið lögð í endanlegan farveg. „Það hversu vel samningurinn er aðlagaður að okkar aðstæðum og hversu vel hann hentar okkur, það ræðst að talsverðu leyti af því hversu mikla vinnu við leggjum í hann.“

Starfshópur um EES-samstarfið. Frá vinstri: Bergþóra Halldórsdóttir, Kristrún Heimisdóttir og …
Starfshópur um EES-samstarfið. Frá vinstri: Bergþóra Halldórsdóttir, Kristrún Heimisdóttir og Björn Bjarnason, formaður hópsins. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Bergþóra bendir á að stór hluti af þeirri vinnu sem unninn sé á vegum Evrópusambandsins felist í faglegri vinnu sérfræðingar þar sem leitast sé eftir því að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það segi sig því sjálft að ef enginn fulltrúi frá Íslandi taki þátt í vinnunni þá sé enginn annar að fara að gera grein fyrir sjónarmiðum sem skipta máli fyrir íslenskar aðstæður. „Það er því þeim mun mikilvægara að við séum meðvituð um í hvaða málaflokkum aðstæður séu þess eðlis að máli skiptir að þeim sé komið á framfæri og það sé gert á þessum fyrstu stigum.“

-En má draga þá ályktun að það hefði mátt skerpa á hagsmunagæslu Íslands hér áður fyrr? „Við fjöllum um það í skýrslunni að á undanförnum árum hafi verið tekin fjölmörg skref í rétta átt“ segir Bergþóra. Hún nefnir sem dæmi stýrihóp sem starfi þvert innan stjórnarráðsins, sem meðal annars vinni að því að bæta verkferla og skilgreina forgangsmál. „Þá hefur ráðuneytum verið gert kleift að vera með fastan starfsmann í Brussel til að sinna betur þeim málefnasviðum ráðuneytanna sem uppruna sinn eiga í EES-reglum, og við teljum þá tilhögun mjög til bóta. Einnig hafi verið opnuð upplýsingagátt EES mála sem bæti upplýsingaflæði innan stjórnsýslunnar og geri almenningi og hagsmunaaðilum kleift að fylgjast betur með málaflokknum. “Það er hins vegar alveg sanngjarnt að segja að starfshópurinn telji að þessar umbætur hafi verið orðnar brýnar og að mikilvægt sé að halda áfram þessu umbótastarfi“.

Víðtæk samstaða um að EES hefði verið heillaskref

Bergþóra segir að það hafi komið starfshópnum á óvart hversu víðtæk samstaða það var meðal viðmælenda hópsins að EES-samningurinn hefði verið heillaskref, og að það hefðu flestir verið sammála um að það væri nánast ómögulegt að ímynda sér hvernig aðstæður væru hér ef Íslendingar hefðu ákveðið á sínum tíma að standa alfarið utan þessa samstarfs. „Við erum fremur lítið land, með mikla hagsmuni af útflutningi og það væri talsvert erfiðara fyrir mörg íslensk fyrirtæki að eiga í viðskiptum við erlenda aðila ef við værum ekki með þessa tengingu við regluverk sem sé þekkt og viðurkennt í alþjóðlegum viðskiptum,“ segir Bergþóra.

Aðspurð um þá fyrirmynd sem felst í sambandi Sviss við Evrópusambandið, en það ríki stendur eitt EFTA-ríkjanna utan EES-samkomulagsins, segir Bergþóra að það sé margt sem þurfi að hafa í huga ef bera eigi sig saman við Sviss. „Þar ber fyrst að nefna landfræðilega legu landsins í hjarta Evrópu þar sem liggja í gegn mikilvægar samgönguæðar og aðrir innviðir. Því séu hagsmunir ESB af samningnum sínum við Sviss langtum meiri en við ríki á jaðri Evrópu. Í öðru lagi þá var samningakerfi Sviss við ESB byggt á þeirri forsendu að Sviss stefndi á inngöngu og að samningunum væri einungis ætlað að gilda til bráðabirgða,“ segir Bergþóra. Það hafi því skapast ýmiskonar vandkvæði af þeim orsökum sem að Sviss og ESB deili nú hart um en til að mynda sé ekkert kerfi sambærilegt tveggja stoða kerfi EES-samningsins sem taki til sambands ríkjanna. „Sviss er núna í afar óþægilegri stöðu gagnvart ESB og illa hefur gengið fyrir aðila að koma sér saman um varanlegt fyrirkomulag með viðeigandi stofnanaumgjörð. Ríkin hafi þegar gripið til ákveðinna aðgerða til að beita hvort annað þrýstingi og þykir staða Sviss í þeim efnum ekki ákjósanleg,“ segir Bergþóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert