Trampólín fauk út á akbraut

Veðrið á höfuðborgarsvæðinu var ekkert sérstaklega blítt í gærkvöldi og …
Veðrið á höfuðborgarsvæðinu var ekkert sérstaklega blítt í gærkvöldi og fengu hús að finna fyrir því. mbl.is/Ómar Óskarsson

Veðrið hafði svo sannarlega áhrif á störf lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Ýmislegt fauk, byggingarefni, þakplötur og jafnvel trampólín. 

Klukkan 19.41 fékk lögregla tilkynningu um þakjárn eða kjöl sem var um það bil að losna af húsi í Urriðakvísl. 

Þakplötur fóru að fjúka á Seljavegi á tíunda tímanum í gærkvöldi og fékk lögreglan tilkynningu þess efnis klukkan hálf tíu. 

Tæpum tuttugu mínútum síðar barst svo tilkynning um byggingarefni sem voru að fjúka í Hagasmára. 

Gul viðvörun enn í gildi

Um klukkan hálf ellefu barst lögreglu svo tilkynning um trampólín á akbraut á Grensásvegi. 

Að lokum barst lögreglu tilkynning klukkan 22.41 um að þakplötur væru að fjúka í Borgartúni.

Gul viðvörun er enn í gildi á höfuðborgarsvæðinu, suðurlandi og miðhálendi. Samkvæmt vef Veðurstofunnar ætti að lægja á höfuðborgarsvæðinu og suðurlandi um hádegisbil. 

Fram að hádegi verður hvassast við ströndina sunnanlands, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

„Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s, einkum undir Eyjafjöllum. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki, einkum fyrir þau sem taka á sig mikinn vind. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert