Víðförull köttur notar undirgöng

Kötturinn Krumma fer víða
Kötturinn Krumma fer víða

Læðan Krumma er ekkert letidýr. Að því komust eigendur hennar að eftir að þau settu á hana GPS-ól til að geta fylgst með ferðum kattarins.  Á hverjum degi fer hún 10-12 kílómetra, rúmlega 300 kílómetra í mánuði sem jafngildir því að að ganga í beinni línu til Húsavíkur og kötturinn tekur enga óþarfa áhættu, heldur notar undirgöng við fjölfarnar umferðargötur.

Krumma er sex ára og býr í Norðlingaholti á heimili Guðrúnar Helgu Jónsdóttur og fjölskyldu. Þau hafa átt Krummu í um ár og fengu hana í Kattholti en fyrri eigendur þurfti að láta hana frá sér. Ólina keyptu þau í sumar þegar þeim fannst Krumma vera fullmikið að heiman og vildu vita hvar hún héldi sig og fylgjast með ef hún lenti í vandræðum.

Krumma í fangi Guðrúnar Helgu.
Krumma í fangi Guðrúnar Helgu.

„Hún er meiri sumarköttur“ segir Guðrún Helga sem segir köttinn einstakan ljúfling. „Hún er mikið úti þegar það er hlýtt, en um leið og hiti fer niður fyrir frostmark vill hún helst halda sig heima.“

Fylgst með kettinum í rauntíma

Með ólinni er hægt að sjá nákvæma staðsetningu læðunnar í rauntíma, hvert hún hefur farið, hvaða leið hún hefur farið og hvort hún er lengi á sama stað í einu. Upplýsingarnar eru aðgengilegar í símaappi.

Krumma á einum af sínum uppáhaldsstöðum við Rauðavatn.
Krumma á einum af sínum uppáhaldsstöðum við Rauðavatn.

„Mér sýnist að hún sé að þvælast mikið fram og til baka, hún er mikið við Rauðavatn og í skóginum í kringum Hádegismóa. Ég hef ofar en einu sinni farið og athugað með hana þegar mér hefur þótt hún vera lengi á sama stað,“ segir Guðrún Helga en auðvelt er að finna köttinn með fulltingi ólarinnar.

Talsverð umræða er um ólar sem þessar í facebook-hópnum Kettir á Facebook, aðdáendur katta og allir dýravinir. Nokkrir kattaeigendur þar segja að það veiti þeim hugarró að geta fylgst með ferðum katta sinna og margir furða sig á þeirri vegalengd sem kettir þeirra eru að fara. Enn aðrir segja að þetta sé þarft öryggistæki, því nokkuð sé um að kettir lokist inni eða festist á stöðum þar sem þeir geti enga björg sér veitt.

Ferðir Krummu hluta úr degi í gær. Rauði liturinn sýnir …
Ferðir Krummu hluta úr degi í gær. Rauði liturinn sýnir þá staði sem hún er mest á. Kattarhausinn sýnir heimili hennar.

Tekur enga áhættu

Spurð hvort eitthvað hafi komið þeim á óvart varðandi ferðir kattarins segir Guðrún Helga að þau hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu mikið hann er á ferðinni. „Við höfðum ekki hugmynd um að hún væri að fara svona langt eða svona langt að heiman, Við höfum séð hana fara alla leið upp í Grafarholt. Svo er gaman að fylgjast með því að hún virðist skyndilega taka ákvörðun um að fara heim eftir að hafa verið á þvælingi allan daginn og við sjáum hana þá ganga beinustu leið heim. Það er ferlega skemmtilegt að horfa á punktinn á skjánum nálgast heimilið. Og það er líka skemmtilegt að sjá að hún er ekki að taka neina áhættu með því að hlaupa yfir Suðurlandsveginn, heldur fer hún alltaf undirgöngin!“

mbl.is