Fjöldi barna glímir við málþroskaröskun

Guðni Th. Jóhannesson forseti ávarpar málþingið.
Guðni Th. Jóhannesson forseti ávarpar málþingið. mbl.is/Eggert

Talið er að 7-10% íslenskra barna, eða um 450 börn í hverjum árgangi, glími við málþroskaröskun sem hefur mikil áhrif á lífsgæði þeirra því hún hamlar því meðal annars að þau skilji það sem sagt er við þau í skólanum eða geti tjáð sig um það sem þeim býr í brjóst. 

Í tilefni af alþjóðadegi málþroskaröskunar á föstudaginn efna samtökin Málefli til málþings í Öskju þar sem megináherslan verður lögð á fræðslu til foreldra og kennara.

Fram kemur í tilkynningu að stór hluti hópsins fái ekki viðeigandi þjálfun en Málefli eru hagsmunasamtök í þágu barna og ungmenna með tal- eða málþroskaröskun.

Samtökin telja þörf á vitundarvakningu í samfélaginu til að auka skilning á því að hér er um raunverulegt vandamál að ræða sem þarf að bregðast við. Mörg barnanna fá greiningu en bið eftir þjálfun hjá talmeinafræðingi getur verið eitt til tvö ár og á meðan fá flest þeirra litla eða enga þjónustu á viðkvæmum tíma í þroskaskeiði þeirra.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ávarpa þingið í upphafi og foreldrar munu deila reynslu sinni af því að eiga barn með málþroskaröskun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert