„Óskiljanlegur harmleikur“

Slysið átti sér stað á Snæfellsvegi, nærri bænum Gröf við …
Slysið átti sér stað á Snæfellsvegi, nærri bænum Gröf við Kleifá á Snæfellnesi. 17 ára bandarískur unglingur lést í slysinu. Ljósmynd/Aðsend

Drengurinn sem lét lífið í umferðarslysi á Snæfellsnesi á laugardag hét Zachary Zabatta, 17 ára gamall framhaldsskólanemi frá New York. Zachary var í fríi með fjölskyldu sinni hér á landi þegar slysið varð og slösuðust foreldrar hans og systur í slysinu. 

Efnt hefur verið til söfnunar fyrir fjölskylduna að því er vefmiðillinn Patch greinir frá. Vísir greindi fyrst frá innlendra miðla.  „12. október 2019 var sorgardagur í lífi Zabatta-fjölskyldunnar. Fjölskyldufríið til Íslands varð að óskiljanlegum harmleik,“ segir meðal annars í umfjöllun Patch, sem vísar í frétt mbl.is af slysinu. 

Slysið varð á Snæ­fells­nes­vegi um klukk­an eitt á laugardag. Ökumaður bif­reiðar­inn­ar missti stjórn á henni með þeim af­leiðing­um að hún fór út af veg­in­um. Valt bif­reiðin nokkr­ar velt­ur og endaði á hliðinni. Fjölskyldan var flutt með þyrl­um og sjúkra­bif­reiðum af slysstað.

Fjölskyldan er búsett í bænum New Hyde Park í New York-ríki. Í frétt Patch segir að yngri systir Zachary, Sophia, sé alvarlega slösuð.

Zachary ásamt fjölskyldu sinni fyrir nokkrum árum.
Zachary ásamt fjölskyldu sinni fyrir nokkrum árum. Ljósmynd/GoFundMe

Á söfnunarsíðunni kemur fram að hjónin og systur Zach hafi ekki verið útskrifuð af sjúkrahúsi og óljóst sé hvenær þau komist til síns heima. Söfnunin á að standa straum af kostnaði vegna læknisþjónustu, jarðarfarar og heimferðar fjölskyldunnar. Tæplega 80.000 dollarar hafa safnast, eða sem nemur rúmum tíu milljónum króna, frá því söfnunin hófst í gær. 

Zachary var nemandi við Saint Mary´s-framhaldsskólann í New Hyde Park. Skólasamfélagið er í áfalli og í færslu sem skólinn birti á Facebook er Zachary minnst sem framúrskarandi nemanda. 

Slysið er til rann­sókn­ar hjá rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á Vest­ur­landi.

mbl.is