Sveinn Andri þarf að endurgreiða þrotabúi 100 milljónir

Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri EK1923.
Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri EK1923. mbl.is/G.Rúnar

Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús EK1923, þarf að endurgreiða þrotabúinu alla þá þóknun sem hann hefur ráðstafað til sín sjálfs af eignum búsins þar sem hann skorti til þess heimild. Þetta kemur fram í ákvörðun héraðsdóms vegna aðfinnslu hluta kröfuhafa í málinu. Samtals er um að ræða um 100 milljónir króna. Ákvörðunin er ekki kæranleg til æðra dómstigs.

Kröfuhafarnir fóru fram á að Sveinn Andri myndi endurgreiða allan kostnað sem hann hefur greitt sér auk þess að héraðsdómur myndi víkja honum sem skiptastjóra.

Vinnubrögð skiptastjóra aðfinnsluverð

Héraðsdómur segir í ákvörðun sinni vinnubrögð Sveins Andra vera aðfinnsluverð þegar kemur að því að upplýsa um ætlaðan kostnað í málinu, en rann hefur rukkað 40 þúsund krónur á klukkustund fyrir skiptastörf stærstan hluta málsins, auk virðisaukaskatts, samtals 49.600 krónur. Hins vegar þyki ekki rétt að víkja honum frá, þar sem vinna við skiptabúið sé á lokametrunum.

Skiptakostnaður búsins er í heild talinn nema um 130 milljónum króna, en Sveinn Andri gerði ekki athugasemdir við þá upphæð við meðferð málsins. Sundurliðaður skiptakostnaður liggur hins vegar ekki fyrir miðað við stöðu málsins í dag, en miðað við lok apríl í fyrra hafði búið greitt 99,4 milljónir í kostnað, þar af 81,7 milljónir í skiptaþóknun til skiptastjóra. Voru eignir búsins á sama tíma 104 milljónir. Hins vegar var þá eftir að fá skorið úr stærsta dómsmáli búsins fyrir Landsrétti, en héraðsdómur hafði fallið þrotabúinu í vil og er þar um að ræða 222 milljónir auk vaxta.

Greiðslur til Sveins ekki undir 100 milljónum

Síðan þá hefur talsverður málskostnaður fallið til. Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður þeirra kröfuhafa sem gerðu athugasemdir, segir í samtali við mbl.is að miðað við tímaskýrslur sem lagðar hafi verið fram fyrir dómi sé ljóst að greiðslur til Sveins Andra séu ekki undir 100 milljónum og heildarskiptakostnaður búsins líklega um 130 milljónir.

Í ákvörðun héraðsdóms fer dómarinn Helgi Sigurðsson yfir að málskostnaður þrotabúsins sé alla vega orðinn 65,7 milljónir í tengslum við þrjú dómsmál þrotabúsins. Hins vegar sé dæmdur málskostnaður í tveimur minni málunum 6,9 milljónir. Stærsta málið á sem fyrr segir enn eftir að taka fyrir í Landsrétti í nóvember. „Skiptastjóri er ekki bundinn af þessum dæmda málskostnaði, en hann gefur þó einhverjar vísbendingar um afstöðu dómstóla til umfangs máls,“ segir í ákvörðuninni.

EK1923 var í stuttan tíma birgir fyrir Subway-veitingastaðina.
EK1923 var í stuttan tíma birgir fyrir Subway-veitingastaðina. Ljósmynd/Arnaldur Halldórsson

Hefði átt að upplýsa um ætlaðan kostnað

Helstu aðfinnslur sem dómarinn gerir tengjast þó því að Sveinn Andri hafi aldrei upplýst kröfuhafa um áætlaðan skiptakostnað eða tímagjald sitt, fyrr en eftir á. „Þó að skiptastjóri hafi gert grein fyrir fyrirhuguðum riftunarmálum á skiptafundum svo og einstökum ráðstöfunum, þá er aðfinnsluvert að hann upplýsti aldrei um ætlaðan kostnað vegna þeirra að öðru leyti en því sem fram kemur á yfirlitum eftir að hann hafði unnið verkið og greitt sér þóknun.“

Þá gerir dómarinn athugasemdir við að kröfuhafar hafi ekki getað gert sér grein fyrir hversu tímafrekur málareksturinn yrði og þar af leiðandi hversu kostnaðarsamur. „Þá er aðfinnsluvert með hvaða hætti staðið var að kynningu skiptastjóra á tímagjaldi og tímafjölda einstakra verkefna.“ Dómarinn tekur ekki afstöðu til hvað teljist hæfileg þóknun skiptastjóra, en vísar þó til dóms Hæstaréttar frá árinu 2017 þar sem miðað var við 20 þúsund króna tímagjald í gjafsóknarþóknun.

Ber að endurgreiða alla upphæðina

Segir í ákvörðuninni að þar sem ekki hafi legið fyrir heimild kröfuhafa fyrir ráðstöfun greiðsla til skiptastjóra beri honum að endurgreiða alla upphæðina til búsins. „Fallist á að skiptastjóri endurgreiði þóknun sem hann hefur ráðstafað til sín af eignum búsins, enda skorti hann heimildir til þeirrar ráðstöfunar.“ Skal endurgreiðslan fara fram ekki síðar en 22. nóvember, en þá fer fram aðfinnslufundur skiptabúsins, en þar verður tekin ákvörðun um framhald skiptanna.

Löng saga í tengslum við þrotabú EK1923

Mikið hefur gengið á við skipti á búi EK1923 og hafa fjölmörg dómsmál sprottið upp vegna þess. Samtals gerðu 10 kröfuhafar athugasemdir við starfshætti Sveins Andra, en þeir eru samtals með um 11% krafna í búið. Kröfuhafar fyrir 75% krafna höfðu hins vegar fyrr á árinu lýst því yfir að þeir vildu halda áfram með störf búsins og málaferli.

EK1923 er þrota­bú heild­söl­unn­ar Eggerts Kristjáns­son­ar ehf. og var keypt árið 2013 af Skúla Gunnari Sigfússyni, jafnan kenndum við Subway. Síðar varð fé­lagið birg­ir fyr­ir Stjörn­una sem er rekstr­ar­fé­lag Su­bway. Fé­lagið fór síðar í þrot og höfðaði Sveinn Andri nokk­ur mál gegn Skúla og fé­lög­um tengd­um hon­um.

Þannig var Stjarn­an dæmd til að greiða EK1923 15 millj­ón­ir í Lands­rétti í des­em­ber eft­ir að Lands­rétt­ur rifti framsali á kröfu EK1923 á hend­ur ís­lenska rík­inu til Stjörn­unn­ar. Í sama mánuði var Skúli dæmd­ur til að greiða 2,3 millj­ón­ir í skaðabæt­ur fyr­ir að hafa gefið fyr­ir­mæli um greiðslu skuld­ar EK1923 þegar fé­lagið var orðið ógjald­fært. Mátti ráða að Skúli hefði viðskipta­lega hags­muni af því upp­gjöri.

Þá var annað fé­lag í eigu Skúla, Sjöstjarn­an ehf., einnig dæmt í des­em­ber til að greiða ann­ars veg­ar 223 millj­ón­ir eft­ir að héraðsdóm­ur rifti greiðslu fé­lags­ins og hins veg­ar 21 millj­ón. Upp­reiknað með vöxt­um nema kröf­urn­ar rúm­lega 400 millj­ón­um. Þetta er stóra málið sem bíður meðferðar Landsréttar í nóvember.

Sveinn segir um að ræða hagsmunaárekstur af versta toga

Í umfjöllun mbl.is um kvörtun kröfuhafanna í byrjun ársins var haft eftir Sveini Andra að þeir kröfuhafar sem gerðu athugasemdir væru litlir kröfuhafar í búið og að í einu til­felli kröfu­hafa sem deilt sé um hvort eigi í raun kröfu á fé­lagið. Þar var um að ræða Stjörnuna, félag í eigu Skúla, en Landsréttur komst síðar á þessu ári að því að Stjarnan væri óumdeilt kröfuhafi í búið.

Þeir kröfuhafar sem upphaflega gerðu athugasemd við starfshætti Sveins Andra voru Stjarnan, Sláturfélag Suðurlands, Mjólkursamsalan og BBA legal. Á síðari stigum bættust við Íslenska gámafélagið, DHL Express, Tandur, Reykjagarður, AG Dynamics og 365 miðlar.

Í ákvörðun héraðsdóms er vísað í vörn Sveins Andra í málinu þar sem hann kallar BBA legal „gervikröfuhafa“ sem eigi aðeins 0,3% kröfu í búið og sé fyrst og fremst notað til að tryggja Skúla aðkomu að skiptafundum og gæta hagsmuna hans. Þeir kröfuhafar sem gera athugasemdir og hafi bæst við á síðari stigum eigi það sammerkt að Heiðar Ásberg, sem er lögmaður Stjörnunnar, hafi tekið yfir fyrirsvar krafnanna. Segir Sveinn Andri það vera hagsmunaárekstur af versta toga að lögmaður félags sem þrotabúið sæki á starfi svo fyrir hluta kröfuhafa á sama tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert