Þingmenn misgóðir í „blandinavísku“

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.
Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðjón S. Brjánsson, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, segir eðlilegt að nefndarmenn standi misvel að vígi í erlendum tungumálum, en starf Vestnorræna ráðsins fer fram á dönsku. Hann segir það ólíklegt að starfið fari fram á ensku í framtíðinni. 

„Það er nú þannig að í vinnureglum Vestnorræna ráðsins er getið um það að vinnumálið skuli vera norðurlandamál. Niðurstaðan hefur verið að það skuli vera danska eða skandínavíska eða einhver „blandinavíska“. Menn auðvitað reyna að gera sig skiljanlega bara eftir atvikum,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is. 

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins sagði á þingfundi í gær, að sér þætti oft á tíðum erfitt að skilja hvað færi fram á ráðstefnum Vestnorræna ráðsins. Þá fjölluðu Ásmundur Friðriksson og Lilja Rafney Magnúsdóttir einnig um tungumál Vestnorræna ráðsins í ræðustól á þingfundi í dag. 

Standa misvel að vígi í dönskunni

Guðjón segir það skiljanlega vera erfitt að sitja langa fundi á framandi tungumáli og geta ekki tjáð sig á móðurmálinu. Það sé þó hluti af alþjóðasamstarfi og að nefndarmenn hafi fólk sér til aðstoðar sem hjálpi við þýðingar. 

„Menn standa auðvitað misvel að vígi og það er engin launung á því að við stöndum ekki jafnfætis til dæmis Færeyingum sem nánast eru tvítyngdir á dönsku og færeysku. Það er óþægilegt að hafa ekki sitt móðurmál og geta ekki talað eins og maður helst vildi. En þetta er ekki stórvægilegt. Menn hafa auðvitað skilning á þessu. Það er mjög erfitt að hugsa sér að fara kosta til túlkaþjónustu, það kostar gríðarlega mikla peninga. Það þýðir ekkert að neita því að þetta hefur ítrekað borið á góma,“ segir Guðjón. 

„Það er alls ekki rétt mynd sem hefur verið gefin að við skiljum hvorki upp né niður af því sem fram fer. Við höfum aðstoðarfólk með okkur sem bæði undirbýr þá sem vilja tjá sig og útskýra ef eitthvað er málum blandið. Þetta er eins og hvert annað alþjóðlegt samstarf. Menn standa misjafnlega vel að vígi í tungumálum. Einhverjir upplifa þetta ábyggilega sem mjög krefjandi og ég geri ekkert lítið úr því. Það er auðvitað krefjandi fyrir alla að sitja allan daginn og hlusta á framandi tungumál, það er aukalegt álag. En þetta er það sem við verðum að leggja á okkur og allir sem gefa kost á sér í alþjóðasamstarfi.“

Snjalltæknin lofvænleg 

Guðjón telur það ólíklegt að Vestnorræna ráðið lúti í gras fyrir enskunni. Með aukinni tækniþróun efast hann ekki um að innan tíðar verði hægt að þýða allt starfið af dönsku með snjalltækninni einni. 

„Menn munu ekki halla sér að ensku. Menn eru auðvitað uggandi yfir litlu tungumálunum og að enskan sé að taka allt yfir. Það er meðal annars áhersluatriði hjá okkur í ráðinu á næsta ári að standa vörð um tungumál þjóðanna. Það væri mjög miður að þurfa lúta í gras fyrir enskunni. 

„En við munum vinna áfram með það að finna ásættanlega lendingu. Ég held að eftir fimm ár verði tæknin orðin þannig að við getum þýtt þetta af dönsku yfir á ensku eða íslensku í gegnum snjalltækin.“

mbl.is