Vonast til að komast af gráa listanum í febrúar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vonast til að Ísland verði fjarlægt …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vonast til að Ísland verði fjarlægt af gráa listanum í febrúar eða júní á næsta ári. mbl.is/​Hari

„Ég tel að það sé lítið sem út af stendur en engu að síður er það alvarlegt að við séum á þessum lista og við munum gera allt í okkar valdi til að fara af honum sem fyrst,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.

„FATF fundar bæði í febrúar og í júní á næsta ári og við bindum miklar vonir við það að fara af listanum í kjölfar þeirra funda,“ bætti hún við.

Ljóst varð í dag að Ísland væri komið á svokallaðan gráan lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, eftir að stjórnvöld náðu ekki að bregðast við öllum þeim athugasemdum sem FATF gerði.

Á árinu 2018 gerði FATF 51 athugasemd við stöðu mála hér á landi meðal annars um skráningar á haldlögðum munum, aðgengi stjórnvalda að upplýsingum um raunverulega eigendur og leiðir til þess að tryggja greitt aðgengi að slíkum upplýsingum. Stjórnvöld hafa unnið að því síðan í apríl á síðasta ári að bregðast við þessum athugasemdum en ekki náðist að klára öll mál.

Í september á þessu ári gerði FATF sex athugasemdir vegna stöðu mála hér á landi og náðu stjórnvöld að bregðast við flestum þeirra, annað hvort með því að klára þau mál eða setja þau í ferli, en það var ekki nóg til þess að koma í veg fyrir að Ísland endaði á gráa listanum.

Grettistaki verið lyft en staðan ekki fullnægjandi

Áslaug segir að fjölmargir aðilar á vegum stjórnvalda hafi komið að því að verða við athugasemdum FATF og að mikil vinna hefði verið lögð í að verða við öllum þeim athugasemdum sem komu fram 2018 og voru 51 talsins.

„Síðan þá hefur grettistaki verið lyft í þessum málum en við tökum það eigi að síður alvarlega að staðan sé með þessum hætti og það er ekki talin fullnægjandi staða,“ sagði Áslaug og bætti við:

 „Það eru afar fá mál og einungis þrjú atriði sem notuð eru í rökstuðningi FATF fyrir þessari ákvörðun og sérstaklega tekið fram að öll þau mál séu komin í ferli og farveg hjá íslenskum stjórnvöldum.“

Flýta innleiðingu eins og mögulegt er

Spurð hvort að hefði verið hægt að afstýra því að Íslands lenti á listanum sagði hún:

„Sumar af þessum athugasemdum sem eftir standa lúta að kerfum sem einfaldlega tekur tíma að innleiða, eins og peningaþvættiskerfi lögreglunnar sem við keyptum árið 2018 og er eitt fullkomnasta kerfi sem völ er á. Það tekur tíma en við munum flýta því eins og hægt er. Við létum öll þau gögn í ljós að þetta væri komið og væri í ferli en það dugði því miður ekki til.“

mbl.is