Förum í fyrsta lagi af gráa listanum í október

Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, fer fyrir teymi íslenskra …
Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, fer fyrir teymi íslenskra embættismanna sem nú sitja allsherjarfund FATF í París. mbl.is/Golli

Ísland losnar ekki af gráum lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, fyrr en í fyrsta lagi í október. Þetta staðfestir Björn Þorvaldsson saksóknari í samtali við mbl.is, en hann leiðir hóp íslenskra embættismanna sem eru nú staddir í París á allsherjarfundi FATF. RÚV fjallaði fyrst um þetta í gærkvöldi.

Er Ísland var sett á listann í haust, vegna fjölda athugasemda frá FATF sem ekki hafði verið brugðist við, sögðu ráðamenn að vonir stæðu til þess að komast af listanum núna í febrúar eftir samráðsfundinn sem stendur yfir í París.

Björn segir að ferlið muni hins vegar taka lengri tíma, þrátt fyrir að vel hafi gengið að vinna eftir aðgerðaáætlun sem sett var upp til að bregðast við veru Íslands á listanum. Enn séu tvö atriði sem eigi eftir að ljúka og stefnt er að því að þeim verði að fullu lokið fyrir næsta fund FATF, sem fram fer í júní.

„Við vonumst til þess að í kjölfar þess fundar verði sendur starfshópur á vegum FATF til Íslands til að yfirfara að þetta sé allt búið hjá okkur, sem það verður væntanlega þá, og þá vonumst við til að fara af listanum í október, á októberfundinum. Við verðum búin að öllu mun fyrr, en ferlið tekur þennan tíma,“ segir Björn.

Vera Íslendinga á gráa listanum hefur til þessa ekki haft nein stórkostleg áhrif, eins og ef til vill var óttast í upphafi. Sagðar hafa verið stöku fréttir af vandræðum Íslendinga erlendis við að eiga bankaviðskipti og einnig hefur verið greint frá því að sparisjóðirnir hafa ekki getað þjónustað viðskiptavini sína um erlendar millifærslur frá því í desember.

„Það er ekki annað að sjá en að þetta hafi haft minni áhrif en við óttuðumst,“ segir Björn.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK