Ótækt að fresta ferli Íslands

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mótmælti fyrirhugaðri frestun júnífundar FATF, alþjóðlegs …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mótmælti fyrirhugaðri frestun júnífundar FATF, alþjóðlegs starfs­hóps um aðgerðir gegn pen­ingaþvætti og fjár­mögn­un hryðju­verka, um málefni Íslands. Tillit var tekið til mótmæla hennar og fer fundurinn fram í formi fjarfundar í júní. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirhuguð frestun júnífundar FATF, alþjóðlegs starfs­hóps um aðgerðir gegn pen­ingaþvætti og fjár­mögn­un hryðju­verka, um málefni Íslands var endurskoðuð í kjölfar mótmæla dómsmálaráðherra. Á fundinum stendur til að taka fyrir mál Íslands sem hefur verið á svokölluðum gráum lista hópsins frá því síðasta haust. 

„FATF ætlaði að hætta við að taka fyrir mál Íslands í júní og ég taldi það alveg algjörlega ótækt því það myndi fresta öllu ferli Íslands og gera það að verkum að við ættum í fyrsta lagi möguleika á að fara af listanum í febrúar 2021,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. 

Hún vakti athygli á málinu á málþingi um peningaþvætti sem fram fór í Hörpu í vikunni. Vegna COVID-19 ætlaði FATF að hætta við fundinn í júní og fresta öllu ferlinu fram í október. Það hefði haft þau áhrif að í október hefði verið tekið ákvörðun um að koma í vettvangsathugun og í febrúar lögð fram tillaga um hvort Ísland hefði uppfyllt skilyrðin. Það taldi ráðherra algjörlega ótækt. „Við höfum uppfyllt, að okkar mati, allar kröfurnar sem út af stóðu þá er það talsvert ósanngjarnt gagnvart Íslandi að bíða í tíu mánuði til að komast af gráa listanum,“ segir Áslaug. 

Þar sem fundurinn verður í formi fjarfundar verður mál Íslands tekið fyrir og standa vonir því enn til að Ísland fari af listanum í október. „Ég get ekki verið annað en bjartsýn, þau telja okkur hafa uppfyllt þessar kröfur ansi hratt og við vonandi stöndum undir því,“ segir Áslaug.

mbl.is