Bræðurnir í bréfinu eru fundnir

Elskulegi bróðir! Þannig hefst bréf Magnúsar til Jóns bróður síns …
Elskulegi bróðir! Þannig hefst bréf Magnúsar til Jóns bróður síns árið 1948.

Ráðgáta um bréf á milli tveggja bræðra frá 1948, sem fannst fyrir tilviljun á háalofti í Reykjavík og olli finnandanum verulegum heilabrotum í áraraðir, er nú leyst. Sonur annars bræðranna segir að nú hafi lausn fundist á 71 árs gömlum leyndardómi.

Fyrir um sjö árum fann Guðrún Dóra Þórudóttir bréf á lofti húss síns á Háteigsvegi 20. Engar vísbendingar voru í bréfinu um bréfritara né viðtakanda, fyrir utan nafn bréfritara sem var  Magnús, að bréfið væri skrifað í borginni Virginíu í Minnesota-ríki í Bandaríkjunum og að hann skrifaði til bróður síns sem ekki var nefndur á nafn í bréfinu. Þá minntist bréfritari á börn sín.

Magnús biðst for­láts á að hafa ekki skrifað fyrr, seg­ist …
Magnús biðst for­láts á að hafa ekki skrifað fyrr, seg­ist ekki hafa haft hug­mynd um hvar bróðir­inn væri stadd­ur, en hafði þó frétt að hann væri bú­inn að missa sjón­ina.

Guðrún Dóra reyndi árangurslaust að hafa uppi á afkomendum bréfritara, en ákvað loks að afhenda Þjóðskjalasafninu bréfið eftir að hafa tekið myndir af því. Hugsunin um bréfið lét hana þó aldrei í friði og fyrir nokkrum vikum birti hún myndir af því á Facebook þar sem hún spurði hvort ein­hver kannaðist við fólkið sem skrifað er um í bréf­inu.

Í kjölfarið var fjallað um málið í Morgunblaðinu og á mbl.is, fjöldi fólks hafði samband við Guðrúnu Þóru með ýmsar ábendingar um bræðurna, meðal annars Sunna Furstenau sem á og rekur ættfræðigagnagrunninn Icelandic Roots sem heldur utan um ættir Vestur-Íslendinga. Í gagnagrunni sínum fann Sunna út hverjir bræðurnir voru og lét Guðrúnu Dóru þær upplýsingar í té. 

Skömmu síðar hafði maður samband við Guðrúnu Dóru, eftir að hafa séð umfjöllun mbl.is, og sagði henni að líklega væri um að ræða friænda hans, Jón Jónsson. Hann kom Guðrúnu Dóru í samband við eiginkonu hans, Dominique Plédel Jónsson, sem staðfesti að bréfið hefði verið frá Magnúsi Magnússyni til tengdaföður hennar, Jóns Magnússonar. 

Jón Jónsson. Hann segir að nú hafi lausn fundist á …
Jón Jónsson. Hann segir að nú hafi lausn fundist á 71 árs gamalli ráðgátu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vissi ekki af föðurbróður sínum vestanhafs

Jón yngri, sonur Jóns þess sem bréfið fékk árið 1948, segir að hann hafi þá verið 13 ára. „Ég vissi ekkert af þessu bréfi þá, enda vissi ég ekki að faðir minn hefði átt bróður í Bandaríkjunum. Hann talaði aldrei um hann, ég veit ekki hvers vegna það var og ég vissi ekkert um þessa ættingja mína fyrr en ég las bók um Eirík Magnússon, afabróður minn, sem var bókavörður í Cambridge. Í bókinni segir að Eríkur hafi tekið að sér Magnús bróðurson sinn þegar hann var 11 ára. Ég vissi aldrei hvers vegna föðurbróðir pabba míns tók Magnús til sín,“ segir Jón.

Að hans sögn fór Magnús síðan til Bandaríkjanna þar sem hann  ílengdist. Jón segir að faðir hans hafi verið fæddur 1871 og Magnús bróðir hans fæddur 1873. „Þeir voru talsvert fullorðnir þegar þetta bréf fer þeim á milli,“ segir Jón.

Í bréfinu kemur fram að í því hafi verið úr frá Magnúsi til Jóns. Magnús virðist hafa fengið af því spurnir að bróðir hans væri blindur og að hann hefði lítið gagn af úrinu, en hann gæti þó hlustað á tifið í því. „Sem gæti á sinn hátt sagt þér, ef þú héld­ir því við eyrað, að ég væri enn lífs og hugsaði til þín,“ skrifar Magnús.

Bréf­inu lýk­ur með kærri kveðju.
Bréf­inu lýk­ur með kærri kveðju.

Gullúrið í vestisvasanum

Jón segist ekki vita hvernig Magnús vissi að bróðir hans væri blindur. „En sögurnar berast víst alltaf, bæði þá og nú. Og þegar ég frétti af bréfinu var 71 árs gamalt leyndarmál loksins leyst. Pabbi átti nefnilega vandað gullúr sem hann hafði í vestisvasa sínum. Þetta var afar fallegt úr en ég fékk aldrei að vita hvaðan hann hefði fengið það, þrátt fyrir að spyrja að því. Það er fyrst núna sem ég veit hvaðan úrið kom,“ segir Jón sem segir að hann og Jón faðir hans hafi verið einkar nánir.

Jón eldri lést árið 1950 og sá yngri segir að líkleg skýring á því að bréfið fannst á háalofti hússins á Háteigsvegi 20 sé að systir hans bjó þar eitt sinn. 

Þakklátur finnandanum

Guðrún Dóra Þórudóttir.
Guðrún Dóra Þórudóttir. Ljósmynd/Aðsend

Jón segist vel skilja að bréfið hafi vakið áhuga fólks og segist þakklátur Guðrúnu Dóru fyrir að hafa ekki hent bréfinu eins og margir hefðu líklega gert. Efni þess sé nú eitt af fáu sem hann eigi eftir föður sinn. „Sjálfur veit ég ekki hvers vegna bræðurnir höfðu engin samskipti, en ég vissi ekki fyrr en ég sá bréfið að þeir hefðu ekki haft samband í 45 ár. Það var augljóslega einhver taug á milli þeirra.  Það segir afskaplega mikið að Magnús hafi sent bróður sínum, föður mínum, þetta veglega gullúr.“

Eins og ævintýri

Guðrún Dóra segir virkilega gaman að afkomandi Jóns hafi fundist. „Málinu er nú lokið, nokkuð sem ég þorði aldrei að láta mig dreyma um. Ég hafði sætt mig við að þetta kæmist aldrei á hreint. Mér finnst þetta eins og ævintýri. Ég fékk svo mikla gleði í hjartað þegar ég áttaði mig á að gátan væri leyst.“

mbl.is