Hefja frumkvæðisathugun um verklag ráðherra vegna gráa listans

Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er sammála um að hefja frumkvæðisathugun …
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er sammála um að hefja frumkvæðisathugun en tillaga þess efnis verður samþykkt formlega á miðvikudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ætlar að hefja frumkvæðisathugun á verklagi ráðherra vegna ábendinga framkvæmdahóps FATF vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta staðfestir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

Tillagan þess efnis var lögð fram á fundi nefndarinnar nú fyrr í morgun en frestað fram á miðvikudag að taka hana til efnismeðferðar.

„Við ákváðum að flutningsmaður tillögunnar myndi útlista aðeins nánar hvernig hann vildi að athugun nefndarinnar færi fram og við myndum formlega taka ákvörðun að hefja frumkvæðisathugun á næsta fundi nefndarinnar á miðvikudaginn,“ segir Þórhildur Sunna og bætir við:

„Það liggur fyrir að við erum komin á gráan lista FATF og höfum verið að fá athugasemdir frá þessari nefnd frá árinu 2006 og hugur nefndarinnar stendur til að skoða hvernig það gat gerst að við erum komin á þennan gráa lista og hvernig verklag ráðherra hefði mátt betur fara svo við getum lært af þessu í framtíðinni.“

Störf margra ráðherra til skoðunar

Ef fara á yfir verklag allra ráðherra í þeim ráðuneytum sem málið snertir frá árinu 2006 er ljóst að það verður mikið verk enda hafa ráðherrar margir hverjir staldrað stutt við, sérstaklega síðustu ár.

„Við sjáum það fyrir okkur að í fyrsta lagi hafi viðbrögð við þessum tilmælum [FATF] og forræði á viðbrögðum verið á hendi dómsmálaráðuneytisins en það eru önnur ráðuneyti sem eiga heima þarna undir. Það eru iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og fjármálaráðuneytið sem hafa málaflokka undir sér og verksvið til að sinna sem kannski hefur ekki verið gert nógu vel,“ útskýrir hún.

Snertir þetta forsætisráðuneytið ekki með neinum hætti?

„Við útilokum ekki neitt,“ sagði Þórhildur Sunna að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert