Umhverfisvænna að fljúga en keyra

Í grein­ingu á um­hverf­isáhrif­um ferðamáta til Ak­ur­eyr­ar sem Isa­via birti …
Í grein­ingu á um­hverf­isáhrif­um ferðamáta til Ak­ur­eyr­ar sem Isa­via birti í fyr­ir­lestri ný­verið kem­ur fram að verst sé fyr­ir um­hverfið að keyra á jeppa til Ak­ur­eyr­ar. mbl.is/Árni Sæberg

Ef einstaklingur kýs að keyra einn á smábíl til Akureyrar, Ísafjarðar eða Egilsstaða mengar hann meira en ef hann tæki flug þangað í flugvél með 80% sætanýtingu. 

Þetta segir Sveinn V. Ólafsson, verkfræðingur hjá Jensen ráðgjöf, sem rannsakað hefur þessi efni.

„Ef þú ert ein í smábíl á leiðinni norður þá er það verra. Þá eyðirðu meira af eldsneyti en ef þú tekur flugið og kolefnissporið þitt er aðeins stærra,“ segir Sveinn.

Undanfarið hafa umhverfisáhrif vegna flugferða verið í umræðunni, þá sérstaklega vegna hugmynda samgönguráðherra um niðurgreiðslur flugferða fyrir íbúa landsbyggðarinnar. 

Umhverfisráðherra hefur gefið út að hann sé fylgjandi hugmyndunum en framkvæmdastjóri Landverndar sagði nýverið að þær væru ekki sniðugar í umhverfissamhengi. Sérstaklega vegna þess að þær myndu hvetja fólk til að fljúga meira. 

Sætanýting í flugferðum Air Iceland Connect til Egilsstaða og Akureyrar er um 80%, samkvæmt upplýsingum frá Isavia. 

Munurinn liggur helst í vegalengd

Eldsneytiseyðsla er um það bil sú sama á hverja 100 kílómetra fyrir hvern farþega í innanlandsflugi þar sem sætanýtingin er 80% og fyrir einstakling sem keyrir einn á smábíl. 

„Stærðargráða per 100 kílómetra er nokkurn veginn sú sama. Þá liggur munurinn fyrst og fremst í því að vegalengdin er miklu styttri í fluginu,“ segir Sveinn. 

„Helsti munurinn liggur í vegalengdinni. Að fljúga til Akureyrar eru að mig minnir 250 kílómetrar í beinni línu en vegalengdin er talsvert lengri ef landleiðin er farin. Það er það sem flugið hefur fram yfir bílana er að það getur farið styttri leið.“

Forsendurnar breytast um leið og farþegum í bílnum fjölgar. 

„Um leið og það eru komnir tveir í bílinn þá er þetta kannski komið á par við flugvélina, ef við erum að tala um smábíl. Um leið og þú ert kominn í meðalstóran bíl þá þarftu kannski að fara upp í þrjá í bílinn til þess að það sé umhverfisvænna en að fljúga.“

Verst að vera einn á jeppa

Sveinn segir að eyðsla flugvéla sé minni en margur heldur. 

„Stóra málið er það að það halda allir að flugið sé svo ofboðslega óumhverfisvænt og núna eru allir komnir með flugviskubit. Þegar þú ert kominn með millilandavélarnar þá eru fleiri innanborðs og þá er eyðslan per farþega miklu minni. Fólk segir að þarna fari svo mikið eldsneyti en það deilist á býsna marga. Ef það væri brú frá Íslandi til Kaupmannahafnar þá væri aldrei umhverfisvænna að keyra þangað en að fljúga.“

Í greiningu á umhverfisáhrifum ferðamáta til Akureyrar sem Isavia birti í fyrirlestri nýverið kemur fram að verst sé fyrir umhverfið að keyra á jeppa til Akureyrar. 

Greiningin er m.a. byggð á gögnum frá Sveini. Þar kemur fram að það sé tæplega þrisvar sinnum verra fyrir umhverfið að keyra einn á jeppa til Akureyrar en að fljúga þangað í flugvél þar sem 80% sæta eru nýtt. 

Fyrir einstaklinga er umhverfisvænast að fara til Akureyrar á rútu eða í strætó. 

mbl.is

Bloggað um fréttina