Framkvæmdastjóri var í samskiptum við RÚV

Rannsókn innri endurskoðanda Seðlabankans hefur leitt í ljós að þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans átti í tölvupóstsamskiptum við starfsmann RÚV í rúman mánuð áður en ráðist var í húsleit hjá Samherja 27. mars árið 2012. Þetta kemur fram í bréfi Seðlabanka Íslands frá 18. ágúst 2019 til forsætisráðherra sem mbl.is hefur í höndunum. 

Rétt er að taka fram að í tölvupóstsamskiptum framkvæmdastjórans við fréttamanninn voru engar trúnaðarupplýsingar en fréttamaður RÚV virðist hafa vitað af fyrirhugaðri húsleit. 

Eins og áður hefur komið fram voru starfsmenn RÚV mættir við skrifstofur Samherja, bæði í Reykjavík og Akureyri, áður en húsleitin hófst. Forsætisráðherra hefur vísað máli vegna ætlaðs upplýsingaleka frá Seðlabankanum til RÚV til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það kemur fram í bréfi forsætisráðuneytisins til lögreglunnar.

Upplýsingalekinn varð í aðdraga húsleitar hjá Samherja og er talið að lekinn gæti falið í sér refsivert brot. 

Þáverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabankans er Ingibjörg Guðbjartsdóttir. Ingibjörg fékk átta milljóna króna námsstyrk frá Seðlabankanum til að stunda framhaldsnám við Harvard háskóla. Auk þess fékk hún 60% laun í heilt ár á meðan hún var í náminu.

Samskiptin virðast hafa tengst öðru

Ingibjörg var í samskiptum við fréttamann RÚV vegna upplýsinga sem fréttamaðurinn veitti gjaldeyriseftirlitinu. 

„Samskipti framkvæmdastjórans við fréttamanninn virðast hafa tengst því og í engum póstanna eru trúnaðarupplýsingar sendar fréttamanninum. Í einum pósti frá fréttamanninum til framkvæmdastjórans sem sendur er daginn fyrir húsleitina virðist sem fréttamaður Ríkisútvarpsins hafi haft upplýsinga um húsleitina áður en hún átti sér stað,“ segir í bréfi bankans. 

Samkvæmt heimildum mbl.is var það RÚV sem ýtti rannsókn á Samherja af stað. í Kastljósþætti RÚV 27. mars 2012, sama dag og húsleitin fór fram, segir beinlínis: „Rannsókn Kastljóss varð kveikjan að rannsókn yfirvalda“. Því má leiða líkum að því að RÚV hafi verið að skoða málið á þeim tíma sem Ingibjörg og fréttamaðurinn áttu í tölvupóstsamskiptum. 

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefur áður óskað eftir skýringum eða upplýsingum á leka frá Seðlabankanum til RÚV. Hann beindi fyrirspurn vegna málsins til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, sem í kjölfarið skrifaði Seðlabankanum bréf 15. mars 2019. Í bréfinu óskaði hún eftir skýringum á því hvort starfsmenn bankans hefðu lekið upplýsingum til RÚV í aðdraganda húsleitarinnar.

Fyrr á þessu ári var gerð rannsókn á tölvupósthólfum Más Guðmundssonar, þáverandi bankastjóra, og Arnórs Sighvatssonar, þáverandi aðstoðarbankastjóra. Sú rannsókn sýndi engin samskipti þeirra við fréttamenn RÚV. 

Í fyrrnefndu bréfi frá Seðlabankanum til forsætisráðherra kemur fram að pósthólf fleiri starfsmanna hafi verið rannsökuð eftir að pósthólf bankastjóranna voru tekin til rannsóknar. Afhjúpaði sú rannsókn fyrrgreindar upplýsingar um samskipti Ingibjargar og fréttamanns RÚV. 

mbl.is

Bloggað um fréttina