Lenti á braut þar sem flugvél var fyrir

Vélar Icelandair á Akureyrarflugvelli í morgun.
Vélar Icelandair á Akureyrarflugvelli í morgun. Ljósmynd/Isavia

Þremur flugvélum Icelandair sem voru á leið frá Bandaríkjunum í morgun var beint til Akureyrar eftir að tveggja manna flugvél,  sem kom inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli um 6-leytið í morgun rann út af flugbrautinni og hafnaði í kanti við enda hennar. Flugstjóri einnar Icelandair-vélanna, sem var að koma frá Seattle, tilkynnti um að vélin hefði ekki nægilegt eldsneyti til að fljúga til Akureyrar og var henni því lent í Keflavík, á brautinni þar sem litla vélin var ennþá á. 

Þetta segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

„Þetta var vél sem notuð er til sjúkraflutninga og um borð voru tveir. Hvorugan sakaði,“ segir Guðjón. Flugbrautin sem um ræðir er svokölluð braut 19. Á hinni brautinni, braut 28, var ísing og hún því lokuð tímabundið.

Vélin frá Seattle lenti síðan án vandkvæða á Keflavíkurflugvelli, en mikill viðbúnaður var á flugvellinum; þar voru slökkviliðs- og sjúkraflutningabílar til taks og brunavörnum og heilbrigðisþjónustu á svæðinu var gert viðvart. „Þetta var hættustig rauður sem helgast af því að þetta var farþegavél full af farþegum,“ segir Guðjón. 

Hinar tvær Icelandair-vélarnar flugu til Akureyrar, lentu þar og eru nú á leiðinni til Keflavíkur.

Litla flugvélin var síðan dregin af brautinni. Málið er nú komið inn á borð Rannsóknarnefndar samgönguslysa, að sögn Guðjóns.

Flugstjóri tekur ákvörðunina

Er æskilegt að flugvél sé lent á braut þar sem flugvél er þegar fyrir? „Því get ég ekki svarað,“ svarar Guðjón og bætir við að flugbrautin hafi verið undirbúin vel og að bremsuskilyrði hafi verið góð. „Endanleg ákvörðun um að lenda er alltaf í höndum flugstjóra. Við upplýsum hann um þær aðstæður sem uppi eru hverju sinni, en hann tekur síðan ákvörðun um hvort öruggt sé að lenda eða ekki.“

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segist ekki geta tjáð sig um málið á þessu stigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert