Björgunarsveitirnar fagna miklum stuðningi

Neyðarkallinn í ár er drónakall.
Neyðarkallinn í ár er drónakall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Salan hefur eftir því sem ég best veit gengið vel og fólk hefur tekið björgunarsveitafólki vel í dag. Við erum voðalega lukkuleg með viðtökurnar eins og alltaf,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Landssöfnun björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Neyðarkall björgunarsveitanna, hófst í dag og stendur yfir til 3. nóvember. Björgunarsveitafólk mun næstu daga standa vaktina á fjölförnum stöðum og selja Neyðarkallinn, sem í ár er kvenkyns björgunarsveitarmaður með dróna.

„Það er ótrúlegt hvað fólk er duglegt að standa á bakvið björgunarsveitirnar og standa með þessum málstað og við fögnum því. Við höldum áfram að selja á morgun og fram á laugardag og við hlökkum til að hitta fólk,“ bætir Davíð við.

Drónar eða flygildi hafa reynst björgunarsveitum vel í verkefnum þeirra undanfarin ár og fleiri og fleiri sveitir hafa tekið slík tæki í notkun. Margar björgunarsveitir eru nú með hópa af sjálfboðaliðum sem sérhæfa sig í notkun dróna við leit að fólki, segir í tilkynningu Landsbjargar frá því í dag.

Hagnaður af sölu Neyðarkalls­ins renn­ur beint til björg­un­ar­sveita og verður notaður til að efla búnað og styrkja þjálf­un björg­un­ar­sveit­ar­manna lands­ins, en rekst­ur björg­un­ar­sveit­anna er dýr þrátt fyr­ir að all­ir björg­un­ar­sveita­menn séu sjálf­boðaliðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert