Tólf leiguíbúðir rísa á þremur dögum

„Við reiknum með að fyrstu íbúarnir flytji inn strax 1. …
„Við reiknum með að fyrstu íbúarnir flytji inn strax 1. desember,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Umsóknarfrestur um íbúðir rennur út 10. nóvember. Ljósmynd/Aðsend

Tólf leiguíbúðir rísa hratt á tveimur lóðum við Hádegisskarð í Skarðshlíð þessa dagana. Fyrstu íbúðinni var komið fyrir í gær og er gert ráð fyrir að íbúðirnar tólf verði komnar á sinn stað í vikulok. Hafnarfjarðarbær fær íbúðirnar afhentar fullbúnar um miðjan nóvember.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ. 

Þar segir, að þessum leiguíbúðunum sé ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum aðgengi að öruggu húsnæði í langtímaleigu.

Skarðshlíð íbúðarfélag hses er sjálfseignarstofnun rekin án hagnaðarsjónarmiða sem stofnuð …
Skarðshlíð íbúðarfélag hses er sjálfseignarstofnun rekin án hagnaðarsjónarmiða sem stofnuð var af Hafnarfjarðarbæ. Ljósmynd/Aðsend

Skarðshlíð íbúðarfélag hses og Modulus eignarhaldsfélag gerðu með sér samning um uppbyggingu á 12 íbúðum á lóðunum Hádegisskarð 12 og 16 í Skarðshlíð í maí á síðasta ári, að því er bærinn greinir frá.

„Stofnaðili Skarðshlíðar íbúðarfélags hses er Hafnarfjarðarbær og er hugmyndafræðin til framtíðar að íbúar sjái sjálfir um stjórn og rekstur félagsins. Sex íbúðir eru á hvorri lóð og mun húsnæðisskrifstofa Hafnarfjarðarbæjar fá tvær íbúðir af þessum tólf í félagslegt húsnæðiskerfi sveitarfélagsins,“ segir í tilkynningunni. 

Nánar á vef Hafnarfjarðarbæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert