„Við viljum öll fara varlega“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákvörðun um að vísa óléttri albanskri konu úr landi í morgun hefur verið harðlega gagnrýnd í dag. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist ekki geta tjáð sig um einstök mál flóttafólks og hælisleitenda en segir verklagið þannig að það verði að liggja skýrt fyrir ef hætta er á ferðum vegna brottflutnings.

Ráðherra segir að í slíkum tilfellum sé óskað eftir tilmælum frá heilbrigðisyfirvöldum og tekin ákvörðun um að fresta brottflutningi. Slíkt hafi oft verið gert, meðal annars þegar konur gangi með barn undir belti og þeim stafi hætta af brottflutningi af landinu en konan sem var send úr landi var komin tæpar 36 vikur á leið.

Landlæknir og Útlendingastofnun funda um málið

„Það hefur komið athugasemd frá Landlækni eftir að brottflutningurinn átti sér stað og það er ljóst að tilmæli frá heilbrigðisyfirvöldum verða að vera skýr,“ segir Áslaug en konan hafði fengið vottorð frá lækni á Landspítala sem mældi gegn því að hún færi í langt flug vegna stöðu sinnar. 

Landlæknir ætlar að fara ofan í saumana á verklaginu við brottflutning konunnar og Áslauga fagnar því frumkvæði. Starfsfólk Útlendingastofnunar og Landlæknis mun setjast niður og fara yfir hvernig hægt sé að skýra verklagið. 

Spurð hvort einhverjar líkur séu á að konan, eiginmaður hennar og tveggja ára barn komi aftur hingað til lands segist Áslaug ekki geta svarað því. Hún bendir á að fólk frá ríkjum sem talin eru örugg, eins og Albanía er talið, fái forgangsmeðferð hjá Útlendingastofnun. 

Stöðugt að reyna að bæta kerfið

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi stjórnvöld harðlega í viðtali við mbl.is fyrr í dag og sagði að þau hefðu engan áhuga á að gera betur í málefnum flóttafólks og hælisleitenda. Áslaug segir hins vegar að stjórnvöld séu stöðugt að reyna að gera kerfið betra, með skilvirkni og mannúð að leiðarljósi. 

Ráðherra bendir á að útlendingalög hafi var samþykkt á þingi eftir þverpólitíska vinnu og þau lög séu nú í framkvæmd. „Ég hef skipað þverpólitíska þingnefnd um málefni útlendinga þar sem verður rætt um framkvæmd laganna þar sem hægt verður að koma með tillögur til úrbóta. Ég mun vanda mig í þessum málaflokki sem öðrum.“

Allir vilja fara varlega

Helga Vala sagði sömuleiðis í fyrrnefndu viðtali að stjórnvöld hefðu hert afstöðu sína til flóttafólks og hælisleitenda. Því er Áslaug ekki sammála og segir að það sé að koma reynsla á kerfið.

„Við viljum hafa það skilvirkt þannig að aðilar sem hingað koma fái svör snemma og þurfi ekki að bíða lengi,“ segir Áslaug og heldur áfram:

„Við höfum reynt að gera kerfið þannig að það þjóni þeim sem þurfa mest á því að halda. Því höfum við gert breytingar til að gera það skilvirkara, sérstaklega til að fólk fái svar fyrr í ferlinu. Við viljum öll fara varlega, sérstaklega þegar um er að ræða þungaðar mæður og börn þeirra, fædd eða ófædd.“

mbl.is