Íslendingar reykja næstminnst í OECD

Reykingar, neysla áfengis og offita eru sagðir vera þrír stærstu …
Reykingar, neysla áfengis og offita eru sagðir vera þrír stærstu áhættuþættirnir sem ekki eru vegna smitsjúkdóma. AFP

Dauðsföll vegna sjúkdóma sem var hægt að komast hjá, með því að koma í veg fyrir þá eða með því að lækna þá, voru fæst á Íslandi, Sviss, Japan, Svíþjóð og Noregi af OECD-ríkjunum. Í þessum löndum voru slík dauðsföll (e. Avoidable mortality) færri en 300 á 100 þúsund íbúa.

Flest slík dauðsföll áttu sér stað í Lettlandi, Litháen og Ungverjalandi þar sem yfir 800 dauðsföll á 100 þúsund íbúa áttu sér stað.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (OECD), Health at at a Glance, sem kom út í dag.

Þar kemur fram að reykingar, neysla áfengis og offita séu þrír stærstu áhættuþættir þegar kemur að sjúkdómum sem smitast ekki milli fólks. Þá sé loftmengun einnig stór áhættuþáttur. Ísland og Mexíkó eru meðal ríkja þar sem hlutfall íbúa sem reykja er hvað lægst, eða undir 10%, á meðan hlutfall þeirra sem reykja er hæst í Grikklandi, Tyrklandi og Ungverjalandi þar sem yfir fjórðungur íbúa reykir.

Hlutfall reykingafólks í Mexíkó er lægst, 7,6%, á meðan hlutfallið er 8,6% hér á landi.

Í skýrslunni kemur fram að meðalneysla Íslendinga, 15 ára og eldri, á áfengi sé nálægt meðalneyslu annarra OECD-ríkja og að hlutfall þeirra sem eru í yfirvigt eða glíma við offituvandamál sé sömuleiðis nálægt meðaltalinu. Það er þó tekið fram að hlutfall þeirra sem eru of þungir sé líklega vanmetið hér á landi.

Dauðsföll sem má rekja til loftmengunar eru aftur á móti töluvert færri hér á landi en í öðrum ríkjum eða 16,9 á hverja hundrað þúsund íbúa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert