Miðflokkurinn auglýsir eftir reynslusögum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segist hafa heyrt fjölmargar sögur …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segist hafa heyrt fjölmargar sögur fólks af viðureign sinni við kerfið sem segir farir sínar ekki sléttar. Nú auglýsir Miðflokkurinn eftir reynslusögum fólks sem hefur „lent í kerfinu“. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðflokkurinn auglýsir eftir reynslusögum í Morgunblaðinu í dag, sögum frá fólki sem hefur lent í „kerfinu“. Flokkurinn hyggst gera það að forgangsverkefni að takast á við „báknið“. 

„Hefur þú mætt óbilgirni af hálfu hins opinbera? Hefur þú upplifað óeðlilegar hindranir stjórnkerfisins við stofnun eða rekstur fyrirtækis eða í daglegu lífi?“ segir meðal annars í heilsíðuauglýsingu flokksins. 

Miðflokkurinn auglýsir eftir reynslusögum í Morgunblaðinu í dag.
Miðflokkurinn auglýsir eftir reynslusögum í Morgunblaðinu í dag. Skjáskot/Morgunblaðið

Segja farir sínar ekki sléttar

„Við þingmennirnir höfum rekið okkur á það á fundum í sumar og ekki síst í haust á ferðum okkar um landið að alls staðar er fólk með sögur af viðureign sinni við kerfið og segir farir sínar ekki sléttar,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í samtali við mbl.is. 

Markmið herferðarinnar er að kortleggja eðli vandans til að geta tekist á við hann með tillögum að lausnum. Reynslusögurnar verða nýttar til að vinna stefnu, frumvörp og þingsályktunartillögur til að einfalda ýmis regluverk, að sögn Sigmundar. „Við erum kannski ekki í aðstöðu til þess að framkvæma allt strax en við munum láta á það reyna og vonumst til þess að ríkisstjórnin verði jafnvel samvinnuþýð hvað eitthvað af þessu varðar,“ segir Sigmundur. 

Sigmundur segir sögurnar og aðstæður fólksins og fyrirtækja ólíkar. „Þetta eru sögur af því að kerfið er að þvælast fyrir þeim með óeðlilegum hætti eða bara einstaklingar í daglegu lífi sem eru að lenda í erfiðleikum með þetta. Eftir að hafa heyrt þetta margar og ólíkar sögur komumst við að þeirri niðurstöðu að það væri best að fá heildarmynd yfir ástandið sem við getum brugðist við.“ 

Öfug þróun síðustu ár

Sigmundur segir að í sinni ráðherratíð hafi hann reynt að „takast á við báknið“ og vísar hann meðal annars í plagg og handbók sem gefin var út í forsætisráðuneytinu í hans tíð árið 2014.  „Svo hefur mér þótt mjög lítið verða úr þessu og öfug þróun hafa haldið áfram. Að vísu fagnaði ég viðleitni ráðherra til að henda út óþörfum reglugerðum, það var fín byrjun,“ segir Sigmundur og vísar í áætlanir tveggja ráðuneyta um niður­fell­ingu yfir þúsund reglu­gerða og aðgerðir sem bein­ast að því að gera ís­lenskt reglu­verk aðgengi­legt og auðskilj­an­legt. 

„En það var eins og mér sýndist fyrst og fremst dauðar reglugerðir sem höfðu enga þýðingu. Það mun þurfa meira til og það er kannski erfiðari hlutinn, þegar þarf að breyta og laga reglur sem eru virkar og fara í kerfisbreytingar, það mætir alltaf ákveðinni mótstöðu. Þá er betra að vera búinn að gera sér grein fyrir hvernig vandinn lítur út og hvernig best er að ráðast til atlögu við hann,“ segir Sigmundur. 

Hann nefnir dæmi um smábátasjómann sem hafði rekið sig á kerfið vegna löndunarskýrslna þegar hann vildi fara að veiða makríl í stað þorsks og lítið lyfjafyrirtæki sem átti á hættu að þurfa að loka vegna nýs frumvarps til lyfjalaga þar sem ekki var gert ráð fyrir starfsemi lítilla fyrirtækja. „Það er eins og kerfið öðlist sjálfstætt líf og menn vita jafnvel ekki af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Það er að mínu mati mikilvægur liður í þessu að það sé ljósara hvar ábyrgðin liggur.“

Sigmundur segist allt eins eiga von á því að sögurnar verði margar. „Ég hafði hugsað mér að vekja athygli á þessum málum en ég þurfti þess yfirleitt ekki, hvort sem það var á opnum fundum eða í heimsóknum til fyrirtækja, það voru svo margir sem lá margt á hjarta um þetta.“ 

mbl.is