Segja ekkert hlustað á kaupmenn

Eigandi Gullkúnstar Helgu, Helga Jónsdóttir, er ein af þeim sem …
Eigandi Gullkúnstar Helgu, Helga Jónsdóttir, er ein af þeim sem eru ósátt við samráðsleysi yfirvalda og ummæli borgarfulltrúanna. mbl.is/RAX

„Þetta fólk veit ekkert um hvað það er að tala og það er það sem kaupmönnum svíður svo. Þeir eru með púlsinn á þessu, þeir horfa á þróunina og sjá þetta,“ segir Gunnar Gunnarsson, talsmaður Miðbæjarfélagsins í Reykjavík.

Félagsmenn eru afar ósáttir við málflutning tveggja borgarfulltrúa, Hildar Björnsdóttur og Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur, í Silfrinu síðastliðinn sunnudag en Gunnar segir að þær hafi farið með rangfærslur og fengið tækifæri á að tjá sig um götulokanir miðsvæðis gagnrýnislaust. Bæði Hildur og Sigurborg töluðu fyrir göngugötum í þættinum.

Rekstraraðilar eru ósáttir við orð borgarfulltrúa um að rekstraraðilar í miðbænum hafi til þessa talað miðborgina niður með andstöðu sinni við götulokanir, að sögn Gunnars sem segir að rekstraraðilar miðsvæðis hafi of lengi látið eins og allt væri í lagi og vonað að ástandið myndi batna.

„Kaupmenn eru búnir að vera að segja ósatt með því að tala upp ástandið og á meðan hefur kvarnast úr undirstöðum rekstrar þeirra. Við leysum ekki málin með því að lifa í lyginni. Við verðum að horfa á raunveruleikann.“

Ekkert samráð

Gunnar segir að samráð yfirvalda við verslunareigendur í miðborginni sem eru andvígir götulokunum hafi ekkert verið þegar ákvarðanir hafa verið teknar um lokun gatna. Hann segir afgerandi meirihluta rekstraraðila á svæðinu á móti götulokunum.

„Kaupmenn hafa ítrekað sagt frá tjóninu sem götulokanirnar hafa valdið ár frá ári og er það er greinilegt að ekkert hefur verið hlustað á þá. Það er ekkert samráð og ekkert samstarf.“

Undir það tekur Helga Jónsdóttir, eigandi Gullkúnstar Helgu sem stendur á horni Laugavegar og Smiðjustígs. Helga hefur staðið í þeim rekstri í 30 ár.

„Ég hef alltaf verið hérna sjálf sem gullsmiður og í tengslum við kúnnann svo ég tel mig vita um hvað málið snýst. Þetta er náttúrlega mjög breytt frá því sem var áður.“

Bolli Kristinsson var kaupmaður við Laugaveg í um 30 ár. Hann segir að samskipti kaupmanna og borgaryfirvalda séu mjög ólík því sem áður var.

„Ég hafði mikil samskipti við borgaryfirvöld og borgarstjóra, þá sérstaklega Davíð Oddsson og Ingibjörgu Sólrúnu, sem alltaf höfðu þetta samráð við okkur. Ég skil ekki afstöðu borgaryfirvalda, hvernig þau koma fram við þessa kaupmenn í dag,“ segir Bolli sem biður borgarstjóra að funda með rekstraraðilum miðbæjarins.

Helga segist ekki hafa gaman af neikvæðri umræðu en vegna ástandsins geti hún ekki annað en látið í sér heyra.

„Það er ekki þannig að ég eða aðrir vilji tala Laugaveginn niður, fyrr má nú aldeilis vera, en stundum getur maður ekki orða bundist. Ég horfi hérna út um gluggann hjá mér allan daginn og sé hvernig ástandið er. Svo koma hérna inn ungar konur sem sitja niðri í ráðhúsi og bera á borð fyrir okkur að þetta sé allt öðruvísi en það raunverulega er,“ segir Helga.

Villandi málflutningur

Hún er sammála því að málflutningur borgarfulltrúanna í Silfrinu hafi verið villandi.

„Mjög villandi, miðað við það sem ég sé hérna út um gluggann hjá mér. Það verður að opna augun á þessu unga fólki sem starfar hjá borginni; leyfa því bara hreinlega að vera hérna í götunni og sjá hvernig þetta er.“

Helga segir nauðsynlegt að eitthvað sé gert í málinu.

„Ég lít þannig á að það þurfi að snúa þessari þróun við því fólk hreinlega kemst ekki að verslunum.“

Mikilvægt er að eitthvað sé gert í málinu þar sem lokanirnar snerti afkomu mjög margra, að mati Gunnars.

„Það sýður á rekstraraðilum þarna niður frá og þeir eru mjög sárir yfir aðför borgaryfirvalda að lífsafkomu þeirra.“

Sigmar bauð fulltrúa viðtal

Gunnar sendi þáttastjórnanda Silfursins, Sigmari Guðmundssyni, tölvupóst fyrir hönd Miðbæjarfélagsins sl. þriðjudag þar sem hann gagnrýndi að umfjöllun þáttarins hefði verið einhliða. Í gær svaraði Sigmar bréfinu og bauð fulltrúa frá Miðbæjarfélaginu að koma í þáttinn og gera grein fyrir sjónarmiðum félagsins.

„Það eru tveir borgarfulltrúar sem hafa barist með klóm og kjafti fyrir rekstraraðila, konur sem sjá raunveruleikann og hafa verið í miklu sambandi við okkur og kynnt sér ástandið. Það eru þær Kolbrún Baldursdóttir úr Flokki fólksins og Vigdís Hauksdóttir frá Miðflokknum. Það hefði til dæmis verið heppilegt að hafa aðra þeirra þarna,“ segir Gunnar sem kveðst afar sáttur með viðbrögð Sigmars. Miðbæjarfélagið hafði krafist fjögurra sæta í næsta þætti Silfursins. Sigmari fannst það þó fulllmikið og lagði frekar til sérviðtal.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »