Mikil samstaða um styrktarmannakerfi VG

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG. Eggert Jóhannesson

„Við höfum starfsrækt styrktarmannakerfi nokkurn veginn frá upphafi. Þetta er hefð sem er líka mjög rík hjá systurflokkum okkar á hinum Norðurlöndunum þannig að ég held að það megi segja að við tökum þessa hefð þannig svolítið úr þessari alþjóðlegu vinstrihreyfingu frekar en almennri íslenskri stjórnmálamenningu.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar græns — framboðs, í samtali við mbl.is en nokkra athygli vakti í gær þegar ársreikningar flokksins voru birtir á vef ríkisendurskoðunar að þingmenn hans eru á meðal helstu stuðningsmanna hans í röðum einstaklinga. Hún segir að mikil samstaða hafi verið um þetta fyrirkomulag innan VG og að það hafi aldrei verið umdeilt innan flokksins.

Einnig gert hjá Alþýðubandalaginu

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og fyrrverandi formaður VG, segist aðspurður að styrktarmannakerfi hafi að því er hann best muni einnig verið starfsrækt innan Alþýðubandalagsins sem oft hefur verið talað um sem forvera VG, en Steingrímur var þingmaður Alþýðubandalagsins 1983-1999.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og fyrrverandi formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og fyrrverandi formaður VG. mbl.is/Eggert

Varðandi styrktarmannakerfið innan VG segir Steingrímur aðspurður að hverjum og einum sé frjálst og í sjálfsvald sett hvað hann leggur að mörkum. „En við höfum alveg frá byrjun treyst talsvert á okkar eigin stuðningsmenn og liðsmenn í gegnum slíkt kerfi. Við erum með það í lögum VG að ungliðahreyfing flokksins fær fjórðung af því sem aflast í gegnum stuðningsmannakerfið til tryggingar fyrir sínum rekstri. Það er auðvitað hvetjandi því margir eru líka áhugasamir um að efla starf unga fólksins.“

Hafi fylgt vinstriflokkum

„Ég held annars að þetta sé eitthvað sem við getum bara öll verið mjög stolt af og almennt hefur þátttakan verið mjög góð. Allt forystufólk, þingmenn sveitarstjórnarfólk, starfsmenn flokksins og auðvitað fjöldi annarra sem hafa tekið þátt í þessu. Okkur hefur munað talsvert um þetta enda ekki haft á mikið annað að treysta en okkur sjálf og síðan auðvitað opinberu framlögin,“ segir Steingrímur enn fremur.

„Ég held að þetta hafi fylgt nokkuð flokkum til vinstri sem annað hvort fengu ekki eða vildu ekki taka við miklum framlögum frá fyrirtækjum á meðan fjármögnun stjórnmálastarfs var að uppistöðu þannig áður hjá öðru. Áður en lögin um það komu til sögunnar þá var aðstöðumunurinn nú kannski meiri og menn urðu að treysta meira á sjálfa sig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina