Hafa millifærslur til rannsóknar

Málið tengist viðskiptum í Namibíu í Afríku.
Málið tengist viðskiptum í Namibíu í Afríku. Kort/Google

Nefnd sem berst gegn spillingu í Namibíu (e. Anti-Corruption Commission) hefur til rannsóknar mál sem tengist útgerðarfélaginu Samherja, að því er fram kemur í namibíska fjölmiðlinum The Namibian.

Þetta kemur fram á vef miðilsins sem birtist í síðasta mánuði. Nefndin er sögð vera með tvö spillingarmál til rannsóknar sem tengjast sjávarútvegi. Annað varðar kvótaframsal til nágrannaríkisins Angóla, sem nemur 1,3 milljörðum kr., en haldið er fram í frétt The Namibian að að féð hafi runnið til stjórnmálamanna og samverkafólks þeirra í báðum löndum.

Hitt málið varðar hvað hafi orðið um millifærslu á 60 milljónum namibískra dollara, sem jafngildir um 520 milljónum kr., en upphæðin er sögð hafa verið færð af reikningi Arcticnam, sem er félag í eigu Samherja. Málið tengist namibískri athafnakonu , Sharon Neumbo, sem krafðist þess að lögreglan myndi rannsaka umrædda millifærslu. Fyrirtæki Neumbo kom að stofnun Arcticnam árið 2013 í samstarfi við Samherja.

Neumbo segir í frétt The Namibian að fjárhæðinni hafi verið stolið og hún millifærð til Mermaria Seafood. Neumbo var handtekin daginn eftir að hún krafðist rannsóknar lögreglu. Því er haldið fram að pólitískar hvatir hafi legið þar að baki þar sem menn vilja koma í veg fyrir að hún aðstoðaði nefndina við rannsókn málsins.

Sam­herji greindi frá því í yfirlýsingu í gær, að félagið hafi ráðið alþjóðlegu lög­manns­stof­una Wik­borg Rein í Nor­egi til að fram­kvæma ít­ar­lega rann­sókn á starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins í Afr­íku.

Fram kom í yfirlýsingunni, að fyr­ir­tækið hefði orðið þess áskynja að fyrr­ver­andi stjórn­andi Sam­herja í Namib­íu, Jó­hann­es Stef­áns­son, hefði farið til fjöl­miðla og lagt fram al­var­leg­ar ásak­an­ir á hend­ur nú­ver­andi og fyrr­ver­andi stjórn­end­um Sam­herja. Þessu taki fyr­ir­tækið mjög al­var­lega. Það muni ekki tjá sig um ein­staka ásak­an­ir fyrr en niður­stöður liggja fyr­ir um rann­sókn­ina á starf­sem­inni í Afr­íku.

Fram kemur á vef Rúv að fréttaskýringaþátturinn Kveikur hyggist í þætti kvöldsins svipta hulunni af vafasömum starfsháttum íslensks stórfyrirtækis.

mbl.is