Húsnæði notað sem kúgunartæki

Algengt er að atvinnurekendur í ferðaþjónustu, sérstaklega í hótel-, gisti-, …
Algengt er að atvinnurekendur í ferðaþjónustu, sérstaklega í hótel-, gisti-, og veitingarekstri útvegi húsnæði fyrir starfsfólk sem þar er í vinnu. Húsnæði getur verið hluti af starfskjörum en er þá stundum notað sem kúgunartæki. mbl.is/Árni Sæberg

„Þau sögðu mér, „þú veist að það eru mikil forréttindi að borga ekki leigu á Íslandi“ – og svo ráku þau mig. Svo þau nota það [að útvega húsnæði] líka sem kúgunartæki.“

Þannig hljóðar lýsing konu sem rætt var við í tengslum við nýja skýrslu ASÍ sem ber yfirskriftina „Hvað mætir útlendingum á íslenskum vinnumarkaði? - Launaþjófnaður og fautaskapur“

Skýrslan er unnin í framhaldi af skýrslu ASÍ um brotastarfsemi á vinnumarkaði og launaþjófnaði sem kom út í ágúst. „Sú skýrsla var meira tölur á blaði og þau vildu fá andlit á tölurnar,“ segir Nanna Hermannsdóttir hagfræðinemi, sem tók viðtöl við fjóra karla og fjórar konur í seinni skýrslunni. Þar má finna fjölmörg dæmi um að fólk af erlendum uppruna, sérstaklega konur, sé fullkomlega háð vinnuveitanda sínum þegar kemur að fæði, húsnæði og jafnvel dvalarleyfi. Þá eru dæmi um að húsnæði sé notað sem kúgunartæki. 

Nanna Hermannsdóttir, hagfræðinemi og höfundur skýrslu ASÍ um hvað mæti …
Nanna Hermannsdóttir, hagfræðinemi og höfundur skýrslu ASÍ um hvað mæti útlendingum á íslenskum vinnumarkaði. Ljósmynd/Aðsend

Eiga að „vera þakklátir fyrir að hafa frítt húsnæði“

Nanna kynnti niðurstöðurnar á opn­um fundi of­beld­is­varn­ar­nefnd­ar Reykja­vík­ur­borg­ar, fjöl­menn­ing­ar­ráðs Reykja­vík­ur­borg­ar, ASÍ, W.O.M.E.N., Kven­rétt­inda­fé­lags­ins og Kvenna­at­hvarfs­ins sem hald­inn var í dag þar sem fjallað var um inn­flytj­enda­kon­ur og of­beldi frá ýms­um hliðum.

Nanna lagði áherslu á upplifun kvenkyns viðmælenda. Brotin eru af ýmsum toga og segir Nanna að algengast sé brotin felist í formsatriðum, líkt og veikindadögum og ráðningasamningi. „Þetta eru litlu hlutirnir sem fólki finnst ekki nógu alvarlegir til að kvarta undan,“ segir Nanna. Mest sláandi fannst henni að heyra lýsingar á framkomu atvinnurekenda gagnvart starfsfólki, sérstaklega þegar kemur að húsnæði og hvernig því er beitt sem kúgunartæki. 

Fram kemur í skýrslunni að algengt er að atvinnurekendur í ferðaþjónustu, sérstaklega í hótel-, gisti-, og veitingarekstri útvegi húsnæði fyrir starfsfólk sem þar er í vinnu. Húsnæði getur verið hluti af starfskjörum en er þá stundum notað sem kúgunartæki.

„Við slíkar aðstæður getur skapast ákveðið nauðungarsamband því starfsmenn eru háðir atvinnurekanda, bæði með húsnæði og fæði. Oft er vinnustaður fjarri byggð, starfsmenn eru bíllausir og komast hvorki lönd né strönd. Þegar og ef starfsmenn leita réttar síns er þeim sagt af atvinnurekendum að þeir skuli vera þakklátir fyrir að hafa frítt húsnæði,“ segir meðal annars í skýrslunni. 

Nanna kynnti niðurstöður skýrslunnar á opnum fundi ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar, fjölmenningarráðs …
Nanna kynnti niðurstöður skýrslunnar á opnum fundi ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar, fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar, ASÍ, W.O.M.E.N., Kvenréttindafélagsins og Kvennaathvarfisins sem haldinn var í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgaði 75 þúsund á mánuði fyrir að deila íbúð með 14 manns

Nanna segir það áberandi hversu margir viðmælenda fannst þeir háðir atvinnurekanda varðandi húsnæði. „Þetta þýðir enn fremur að atvinnurekendur hafa vald yfir starfmönnum sem eiga erfitt með að komast úr slæmum aðstæðum.“

Þá segir hún algengt að þeir sem leigja húsnæði af atvinnurekanda séu að borga langt yfir markaðsverði. Sem dæmi hafði einn viðmælandi borgað 75.000 krónur á mánuði fyrir húsnæði sem hann deildi með fjórtán eða fimmtán öðrum. Eitt klósett var í íbúðinni. 

Nanna segir niðurstöðurnar ekki hafa komið sérstaklega á óvart, reynslusögurnar rímuðu vel  við niðurstöður vinnumarkaðsskýrslu ASÍ. Algengustu brotin voru svipuð og þau sem þar koma fram en þó bættist við ný vídd: Hlutur atvinnurekenda í upplifun erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði. „Þetta er til staðar en maður gerir sér kannski ekki grein fyrir því hversu alvarleg og algeng þessi brot eru og hvað þetta hefur í raun áhrif á marga,“ segir Nanna. 

Á undanförnum árum hefur málum sem rata til stéttarfélaga sem tengjast brotastarfsemi á vinnumarkaði og launaþjófnaði fjölgað. Brot virðast fremur beinast að þeim hópum sem síður þekkja réttindi sín eða eru í veikri stöðu til að sækja rétt sinn, t.d. ungu fólki, aðfluttu verkafólki og tekjulágum.

Nanna vonast til að skýrslan gefi stéttarfélögum aukinn styrk í baráttunni gegn launaþjófnaði, auk þess sem hún vonar að viðtölin geri málefnið mannlegra. „Þó að þetta séu bara átta einstaklingar þá voru fleiri sem voru tilbúnir að segja sína sögu. Þetta er efni í eitthvað miklu, miklu stærra,“ segir Nanna sem hyggst vinna lokaverkefni sitt í hagfræði um hagfræðilegu áhrifin af launaþjófnaði. Hvort það nýtist í baráttunni segja Nanna að verði bara að koma í ljós. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert